„Við höfum ekki tekið neina ákvörðun um arðgreiðslu enda eru fram undan dýrar framkvæmdir. Við höfum átt fyrir öllu sem við höfum gert og ætlum að halda því áfram,“ segir Óskar, aðspurður hvort hann og aðrir eigendur Kerfélagsins, athafnamennirnir Sigurður Gísli Pálmason, Jón Pálmason og Ásgeir Bolli Kristinsson, ætli að greiða sér arð út úr félaginu.
Gjaldtaka við Kerið hófst sumarið 2013 og er aðgangseyrir þar nú 400 krónur með virðisaukaskatti. Það er sama upphæð og landeigendur við Helgafell á Snæfellsnesi hófu að rukka þá sem ganga á fellið í mars síðastliðnum. Aðgangur að Víðgelmi í Hallmundarhrauni í Borgarfirði hefur síðan í maí í fyrra kostað 6.500 krónur. Um 8.000 manns skoðuðu hellinn í fyrra samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu The Cave sem sér um leiðsögn þar. Gjaldtaka í Raufarhólshelli í Þrengslum hófst í byrjun júní og þar kostar 4.900 krónur á mann.
Að auki stendur til að rukka á bilinu 500 til 700 krónur fyrir notkun bílastæða við Seljalandsfoss, hefja gjaldtöku við Kolugljúfur í Víðidalsá í Húnaþingi vestra, og landeigendur við Reynisfjöru hafa boðað að bílastæðagjald verði innheimt. Í langflestum tilfellum hafa landeigendur gefið út að aðgangseyrir fari í að bæta aðstöðu til móttöku ferðafólks og verndun náttúrunnar fyrir átroðningi.

„Við höfum ekki sótt um neina styrki og byrjuðum strax sumarið 2013 á ýmsum endurbótum sem hefur verið haldið áfram eftir því sem tekjur hafa vaxið. Í fyrra reistum við viðamikinn pall á aðalútsýnissvæðinu og fyrsta áfanga að tröppum á neðsta svæði Kersins. Í það fengum við sérsmíðað úr íslensku lerki úr Kjarnaskógi.
Síðan erum við á hverju ári að keyra fleiri hundruð hjólbörur af rauðamöl í stígana, höfum stækkað bílastæðið og ætlum að reisa klósett og aðstöðuhús fyrir starfsfólk um leið og leyfi skipulagsyfirvalda fæst. Þetta eru framkvæmdir fyrir tugi milljóna sem við erum búin að safna fyrir núna,“ segir Óskar.