Skoðun

Útgjöld sjúklinga og aðgengi að heilbrigðisþjónustu

Reynir Arngrímsson skrifar
Nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúkratryggðra gekk í gildi 1. maí. Í nýrri reglugerð er sett þak á útgjöld sjúklinga sem þyngsta byrði hafa borið af veikindum sínum t.d. krabbameinssjúklingar. Þá lækkar einnig t.d. kostnaður einstaklinga sem fara til geðlæknis þrisvar í mánuði og annarra í sambærilegri stöðu úr 175.919 kr. í 69.700 kr. fyrsta árið og svo 49.200 á ári eftir það ef veikindin leiða til örorku. Þessum áfanga ber að fagna.

Hins vegar er gagnrýnivert að ríkisstjórnin kýs að dreifa kostnaði sem af þessari breytingu hlýst á aðra bráðaveika fremur en almannatryggingakerfið í heild. Þetta leiðir af sér að greiðsluþakið verður einfaldlega of hátt fyrir margar fjölskyldur. Þannig gætu hjón með eitt barn þurft að greiða allt að 185.863 kr. á ári vegna bráðra veikinda í fjölskyldunni. Er þá ótalinn allur lyfja- og hjálpartækjakostnaður sem slíkum veikindum getur fylgt. Samkvæmt þessu nýja kerfi munu 115 þúsund einstaklingar og barnafjölskyldur greiða meira vegna sjúkrakostnaðar en þau gerðu fyrir breytinguna sem nú gengur í gildi. Þá er hámarksgreiðslan í einum mánuði 24.600 auk lyfjakostnaðar of stór biti fyrir marga sem veikjast skyndilega.

Byrjað á vitlausum enda

Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Þessu markmiði hefur ekki tekist að ná og er nýleg úttekt Ríkisendurskoðunar allsherjar áfellisdómur um langvarandi tregðu til fullnægjandi fjármögnunar heilsugæslunnar. Þetta hefur bitnað á uppbyggingu og mönnun. Tilvísunarkerfi vegna barna er því vanhugsuð aðgerð, auk þess sem kerfið er ekki tilbúið. Hvorki rauntíma greiðslukerfi né fyrir rafræn tilvísunarsamskipti.

Stýring í heilbrigðiskerfinu næst aðeins með því að tryggja fullnægjandi þjónustustig og fjölgun heimilislækna. Í stað þess að tryggja fjármögnun slíkra lausna má færa rök fyrir því að verið sé að auka á ringulreið í kerfinu og álag á bráðamóttökur sjúkrahúsa og heilsugæslu til lengri eða skemmri tíma sem bitnar á barnafjölskyldum og kemur til með að auka kostnað þeirra í mörgum tilvikum.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×