Körfubolti

Hildur vill fá fleiri konur í þjálfun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir stýrði Breiðabliki upp í Domino's deild kvenna á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari meistaraflokks. Hún vill fá fleiri konur í þjálfun.

„Ég sá strax metnað í liðinu og umgjörðinni í kringum liðið. Ég fékk strax að heyra það þegar ég réð mig hér til starfa að stefnan væri sett á Domino's deildina. Ég var alveg ákveðin í að taka þátt í því,“ sagði Hildur í samtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Enginn erlendur leikmaður lék með Breiðabliki í 1. deildinni í vetur þótt það hafi upphaflega staðið til.

„Það stóð alltaf til en svo ákváðum við að flauta það af. Ég taldi það gott fyrir stelpurnar að bera meiri ábyrgð sjálfar inni á vellinum; ekki setja þetta í hendurnar á atvinnumanni og láta hana klára leiki. Þær yrðu þá tilbúnari í úrvalsdeildina eftir ár og ég held að það hafi keppnast mjög vel. Það hafa margar tekið góðum framförum og eru orðnir góðir leikmenn,“ sagði Hildur.

Tvö af fjórum liðum í 1. deild kvenna í vetur voru með konur við stjórnvölinn. Hildur stýrði Breiðabliki og Heiðrún Kristmundsdóttir var með lið KR sem endaði í 3. sæti.

Hildur vill þó sjá fleiri konur í þjálfun og stjórnunarstörfum.

„Við erum of fáar að starfa í kringum íþróttirnar. Það er það sama í öðrum boltagreinum. En það er greinilega fjölgun, við vorum tvær í vetur og stóðum okkur báðar nokkuð vel, held ég. Það er vonandi að það bætist enn fleiri við,“ sagði Hildur en þær Heiðrún fengu mikið hrós frá Benedikt Guðmundssyni, þjálfara Þórs Ak., í pistli sem hann skrifaði á Facebook á sunnudaginn.

Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×