Viðskipti innlent

Barst 1.200 nafnatillögur fyrir 201 Smára

Haraldur Guðmundsson skrifar
Framkvæmdir við 201 Smára eiga að hefjast í maí. mynd/201 Smári
Framkvæmdir við 201 Smára eiga að hefjast í maí. mynd/201 Smári Mynd/201Smári
Skipulagsráði Kópavogsbæjar barst 1.200 tillögur í nafnasamkeppni um heiti á götum og torgum í hverfinu 201 Smári sem byggja á sunnan Smáralindar. Starfsmenn hjá skipulags- og byggingardeild Kópavogs þurfa nú að vinna úr tillögunum í samvinnu við fasteignafélagið Klasa ehf. og velja að minnsta kosti tíu tillögur.

Þetta kemur fram í fundargerð skipulagsráðsins sem tók málið fyrir á mánudag. Þar var umsókn Klasa um sex hæða fjölbýlishús með 76 íbúðum samþykkt. Stefnt er að 620 íbúða borgarhverfi, eða um 84 þúsund fermetrum af nýju húsnæði, á um þriggja og hálfs hektara svæði.

Eigendur Klasa, móðurfélags 201 Smára, eru fjárfestarnir Tómas Kristjánsson, stjórnarmaður í fasteignafélaginu Reginn, Finnur Reyr Stefánsson og Ingvi Jónasson. Félagið hefur unnið að þróun svæðisins í samstarfi við Regin og Kópavogsbæ. Nýtt deiliskipulag svæðisins tók gildi í fyrra og stefnt er að því að uppbygging hefjist í maí. Markaðurinn greindi í febrúar frá stefnu eigenda Norðurturnsins við Smáralind gegn verslunarmiðstöðinni og Kópavogsbæ. Þeir hafa farið fram á staðfestingu dómstóla á að kvaðir um samnýtingu bílastæða séu í gildi og að deiliskipulag sem heimilar 201 Smára verði ógilt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×