Skoðun

Óraunhæfir fiskeldisdraumar

Orri Vigfússon skrifar
Opið sjókvíaeldi á laxfiskum er stórhættulegt og hefur valdið ómældum og óafturkræfum skaða í vistkerfum þar sem það hefur verið reynt í nágrannalöndum okkar. Yfirvöld á Írlandi gerðu sér grein fyrir því að áður en fiskeldi í stórum stíl yrði reynt við Galwayflóa á vesturströnd Írlands (með gamalli, norskri tækni og „kynbættum“, framandi laxi líkt og hér er fyrirhugað) þyrftu að fara fram kostnaðarsamar undirbúningsrannsóknir. Beðið var með úthlutun leyfa í nokkur ár og sótt um milljarða króna styrki úr sjóðum Evrópusambandsins til að greiða kostnaðinn.

Hér á landi keppast ráðuneyti og opinberar stofnanir við að hraða fiskeldisframkvæmdum án þess að vanda undirbúninginn. Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á verndargildi og þolmörkum umhverfisins, áhættumat skortir, engin úttekt á lagagrundvelli liggur fyrir og engin heildarstefna hefur verið mótuð og ekki hefur heldur verið gerð fagleg úttekt á samlegðaráhrifum stóraukins fiskeldis.

Fyrirliggjandi matsáætlanir fiskeldismanna eru einhliða unnar af þeim sjálfum og út frá forsendum sem þeir gefa sér sjálfir. Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun hafa litla reynslu og þekkingu á fiskeldi og hvernig eigi að greina hættur fyrir vistkerfið og verðmæti þeirra eigna og hlunninda sem kunna að verða fyrir skaða. Fiskeldismenn benda á að litlar eldiskvíar skaði óverulega og því eigi að leyfa þeim að spreyta sig á risaeldi. Í a.m.k. einni matsgerðinni kemur fram að saur- og fóðurleifaúrgangur geri vistkerfinu gott þótt vitað sé að hann geti verið stórhættulegur fyrir lífríkið í nágrenninu.

Í nýlegum blaðagreinum hafa íslenskir fiskeldismenn gert lítið úr þeirri hættu sem villtum laxfiskum stafar af erfðablöndun við eldisfisk sem sleppur úr kvíum. Eldisfiskur er þeirrar náttúru að hann hefur verið ræktaður til að vaxa hratt og verða holdmikill búrfiskur en ekki til að spjara sig í náttúrunni, þar sem reynir m. a. á ratvísi gönguseiða á fæðuslóðir og hæfileika kynþroska fiska til að rata aftur til hrygningarstöðva. Fiskeldismenn leyfa sér að líkja slíkum úrkynjuðum eldislaxi saman við seiði sem alin eru í seiðastöð og eru af villtum stofni þeirra áa sem þeim er sleppt aftur í. Furðu sætir að slíkur málflutningur sé borinn á borð fyrir almenning.

Nánast opinbert skotleyfi á náttúruna

Þá er ótalinn þáttur Matvælastofnunar sem er nú undir sérstöku eftirliti nefndar vegna slælegra vinnubragða. Þar ríkir nánast opinbert skotleyfi á náttúruna, varúðarreglur virðast hundsaðar og ekki er tekið tillit til sjúkdómahættu frá fiskeldi – með tilvísun til þess að smitsjúkdómar séu hvort sem er til staðar í náttúrunni. Öllum öðrum er þó ljóst að náttúrulegir sjúkdómar geta magnast upp í óviðráðanlegan faraldur þegar þeir komast í fiska sem er safnað saman á lítið svæði í eldiskvíum.

Á málstofu sem haldin var í Reykjavík á vegum NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og Líffræðifélags Íslands hélt Dr. Trygve T. Poppe, prófessor í dýralækningum við Háskólann í Ósló, fyrirlestur og margítrekaði nauðsyn þess að fylgjast með magni laxalúsa í öllum fjörðum þar sem sjókvíaeldi á laxi væri fyrirhugað á Íslandi.

Laxalúsin er sérstaklega illskeytt og getur borist í vatnasvæði og gert skaða í allt að 200 km fjarlægð frá eldiskvíum. Viðurkenndir erlendir staðlar kveða á um að í mælingum megi ekki finnast meira en ein kvenkyns lús á hverja tíu laxa í eldiskví. Fróðlegt verður að frétta hvernig lúsastaðan hefur verið á Íslandi sl. mánuði – og hvaða viðmiðunarstaðla íslensk stjórnvöld hafa hugsað sér að taka upp varðandi ásættanlegt lúsa­magn í kringum sjókvíeldi.

Fjölmargir háskólar, líffræðistofnanir, Ríkisendurskoðun Noregs, forstjóri Alþjóða hafrannsóknaráðsins og fjöldi annarra sérfræðinga hafa varað opinberlega við opnu sjókvíaeldi. Gamla tæknin sem á að nota hér á landi hefur nú þegar skaðað vistkerfið á flestum stöðum þar sem hún hefur verið reynd. Á Íslandi hefur landeldi skilað arði og Norðmenn eru nú að segja skilið við gömlu tæknina með opnum fiskeldiskvíum í sjó. Þess í stað eru þeir nú af fullum krafti að skipta yfir í lokuð kerfi. Nú er rétti tíminn til að horfa til vistvænna aðferða í fiskeldi í stað þess að setja viðkvæmt lífríkið hér við land í uppnám með úreltri eldistækni sem mengar út frá sér, veldur erfðablöndun við villta stofna og magnar upp lúsafaraldra og sjúkdóma sem hafa reynst illviðráðanlegir í nágrannalöndum okkar.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×