Viðskipti innlent

Stjórnvöld skipulega blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar á Búnaðarbankanum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rannsóknarnefnd Alþingis hefur sannreynt að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser var aldrei í reynd fjárfestir í Búnaðarbankanum þegar 45,8 prósent hlutur ríkisins í honum var seldur í janúar 2003, ólíkt því sem haldið var fram allt frá upphafi.

Það er afdráttarlaus niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöld hafi skipulega verið blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar. Skýrslan var afhent forseta Alþingis klukkan 10 í dag.

Skýrslan var kynnt í beinni útsendingu á Vísi og má sjá upptöku frá honum hér að ofan.

Í skýrslunni segir að ítarleg skrifleg gögn sýni með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í orði kveðnu.

Kjartan Bjarni afhendir Unni Brá Konráðsdóttur, forseta Alþingis skýrsluna.
Leynilegir samningar og millifærslur

Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.

Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum, að því er segir í tilkynningu frá rannsóknarnefndinni.

Síðari viðskipti á grundvelli ofangreindra leynisamninga gerðu það að verkum, að Welling & Partners fékk í sinn hlut rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala sem voru lagðar inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser. Snemma árs 2006, eða um þremur árum eftir viðskiptin með eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum, voru 57,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited sem stofnað var af lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla.

Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafsson. Um svipað leyti voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla. Ekki liggja fyrir óyggjandi upplýsingar um raunverulega eigendur Dekhill eða hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins.

Ítarlega er fjallað um málavexti í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem gerð var opinber í dag. Hún er aðgengileg á vef rannsóknarnefnda Alþingis og í henni er meðal annars að finna tölvupóstsamskipti milli ofangreindra aðila. Þau sýna hvernig íslensk stjórnvöld voru blekkt og hvernig rangri mynd af viðskiptunum var haldið að fjölmiðlum og almenningi. 

Á hinn bóginn bendir ekkert til annars en að öðrum aðilum innan fjárfestahópsins sem keypti hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, S-hópsins svokallaða, hafi verið ókunnugt um leynisamningana og að þeir hafi staðið í þeirri trú að Hauck & Aufhäuser væri raunverulegur eigandi þess hlutar sem hann var skráður fyrir.


Tengdar fréttir

Gerðu mikið úr aðkomu þýska bankans

Forsvarsmenn S-hópsins svokallaða lögðu mikla áherslu á aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum hópsins á tæplega fimmtíu prósenta hlut ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003. Ný gögn benda hins vegar til þess að um málamyndagjörning hafi verið að ræða og að bankinn hafi aldrei tekið neina fjárhagslega áhættu í málinu.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.