Skoðun

Stoppum draugun

Nikólína Hildur Sveinsdóttir skrifar
Sem einhleyp, ung kona hef ég gaman að því að fara á stefnumót, en ég fór einmitt á tvö slík nýverið með manni sem ég komst í kynni við í gegnum ónefnt snjallsímaforrit. Hann var hávaxinn, sætur, metnaðargjarn og skildi flesta brandarana mína, en að því er ekki alltaf hlaupið.

Stefnumótin tvö voru hugguleg, að ég hélt, en hann tróð snjóinn með mér heim upp að dyrum á því fyrra og nokkrum dögum síðar kysstumst við undir dansandi norðurljósum. Því var mér ansi brugðið þegar mér bárust skilaboð sem í stóð „Ég vil ekki hittast aftur“ einhverjum dögum síðar.

Mín fyrstu viðbrögð voru að sjálfsögðu að vera sármóðguð, enda egóið feikimikið og viðkvæmt. Mér fannst þetta auk þess ansi dramatískt og blákalt af honum, þar sem við höfðum, jú, aðeins farið á tvö stefnumót. En eftir nokkurra daga umhugsun, og eftir að hafa sleikt sár egósins, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að svona höfnun sé af hinu góða. Hversu oft hefur maður lent í því að fara á nokkur stefnumót, jafnvel til lengri tíma, með einhverjum og heyra svo skyndilega ekkert í viðkomandi?

Með öðrum orðum verður maður „draugaður“ (e. ghosted). Að vera „draugaður“ af einhverjum felur í sér að viðkomandi slítur samskiptum upp úr þurru. Maður veit varla hvað snýr upp og hvað snýr niður, fastur í óvissu um hvað viðkomandi sé að hugsa. Vill viðkomandi láta eltast við sig eða hvarf áhuginn skyndilega?

Nú er ég sjálf ekki alsaklaus, ég viðurkenni að ég hef „draugað“ fólk. Við „draugum“ einfaldlega af því að það er auðvelt. Það er mun auðveldara að klippa á samskipti en að útskýra af hverju maður vill ekki halda áfram að blanda geði við einhvern.

Því tel ég að við ættum öll að taka okkur kunningja minn og hans bláköldu taktík til fyrirmyndar, því það vill enginn lifa í því óvissuástandi sem „draugun“ felur í sér. Höfnun er ömurleg, en óvissa er verri. Auk þess gefur höfnun af þessum toga manni tækifæri til að næra brotið egóið. Ég segi, til að mynda, sjálfri mér að ég sé gull. Ég er gull en sumir kæra sig ekki um gull og vilja heldur silfur og það er í góðu lagi.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×