Skoðun

Vonbrigði með ákvörðun peningastefnunefndar

Framkvæmdastjórar SA, SI, SAF og SFS og SVÞ skrifa

Peningastefnunefnd hefur ákveðið að halda vöxtum óbreyttum. Það eru mikil vonbrigði fyrir atvinnulífið enda sterk rök fyrir vaxtalækkun í kjölfar afnáms fjármagnshafta.

Verðbólga hefur verið undir 2,5% markmiðinu í þrjú ár samfleytt og verðbólguvæntingar eru það einnig. Það segir sína sögu. Sterk rök eru því fyrir lækkun stýrivaxta, einkum þar sem Seðlabankinn hefur í spám sínum byggt á veikara gengi krónunnar en nú er. Öll rök hníga að því að verðbólgu sé ofspáð í nánustu framtíð.

Það stefnir í áframhaldandi styrkingu krónunnar verði ekki gripið í taumana. Afnám hafta virðist hafa heppnast vel enda styrktist krónan á fyrsta haftalausa deginum, og miðað við traust innlendra og erlendra markaðsaðila á íslensku efnahagslífi mun hún styrkjast áfram. Vitnisburður um það er innreið erlendra fjárfesta á innlendan hlutabréfamarkað.

Hagvöxtur er mikill og viðskiptaafgangur nemur 8% af landsframleiðslu. Nýjar kortaveltutölur sýna hóflegan vöxt einkaneyslu. Þrátt fyrir mikinn vöxt óskuldsettrar einkaneyslu á árinu 2016 er hún í sögulegu lágmarki, sem hlutfall af VLF, og hefur það hlutfall ekki verið lægra frá árinu 1949. Þá eru fjárfestingar í sögulegu meðaltali þrátt fyrir mikla uppsafnaða fjárfestingaþörf.

Áframhaldandi hátt vaxtastig og meðfylgjandi ofurstyrkur krónunnar mun grafa undan efnahagslegum stöðugleika. Ytri staða þjóðarbúsins er mjög góð og hefur sjaldan eða aldrei verið betri. Sterkir straumar erlends fjármagns renna inn í efnahagslífið og það skapar svigrúm til vaxtalækkunar. Þótt meginmarkmið Seðlabankans séu lág og stöðug verðbólga er hlutverk hans einnig að stuðla að fjármálastöðugleika, en í því hlýtur að felast að hann sporni gegn óhóflegum efnahagssveiflum.

Rök Seðlabankans fyrir miklum vaxtamun gagnvart útlöndum gætu hugsanlega verið að samhliða losun hafta þurfi munurinn að vera mikill til að sporna gegn útflæði fjármagns. En vaxtamunurinn er allt of mikill og ýtir undir innflæði erlends fjármagns og styrkingu krónunnar.

Atvinnulífið leggur áherslu á þessi málefnalegu rök. Vonbrigðin með óbreytta stýrivexti eru veruleg.

Halldór Benjamín Þorbergsson

framkvæmdastjóri SA

Almar Guðmundsson

framkvæmdastjóri SI

Helga Árnadóttir

framkvæmdastjóri SAF

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

framkvæmdastjóri SFS

Andrés Magnússon

framkvæmdastjóri SVÞ

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Skoðun

Skoðun

Creditinfo

Daníel Freyr Rögnvaldsson skrifar

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.