Viðskipti innlent

Ráðherra lofar Vestfirðingum Teigsskógi og Dynjandisheiði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Samgönguráðherra lofar Vestfirðingum því, þrátt fyrir niðurskurð, að uppbygging vegarins um Dynjandisheiði muni fylgja Dýrafjarðargöngum og að vegagerð um Teigsskóg hefjist um leið og skipulagsmál þar leysist. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Óhætt er að segja að mörgum hafi brugðið að heyra í gærkvöldi um tíu milljarða króna niðurskurð samgönguáætlunar. Sterkust eru viðbrögðin frá íbúum svæða sem búa við þjóðvegi eins og þann um Ódrjúgsháls á Vestfjarðavegi. Þannig segir starfandi bæjarstjóri Vesturbyggðar í viðtali á Vísi að þar sé fólk gríðarlega reitt.

Ekið niður Ódrjúgsháls í Gufudalssveit. Vegagerðin vill í staðinn að Vestfjarðavegur liggi um Teigsskóg.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Vísað er til þeirrar ákvörðunar að skera niður 1.200 milljónir króna, sem áttu að marka upphaf þess að Vestfjarðavegur flyttist af Ódrjúgshálsi yfir í hinn umdeilda Teigsskóg. 

„Teigsskógarverkefnið er svona í frágangi eða undirbúningi og við gerum ráð fyrir því að um leið og þau mál leysast þá verði farið af stað þar,“ segir Jón Gunnarsson samgönguráðherra. 

Svo vill til að stór áfangi náðist í vikunni í skipulagsferlinu þegar Vegagerðin lagði formlega fram matsskýrslu og hefur Skipulagsstofnun nú fjórar vikur til að gefa álit sitt. Ákvörðun um framkvæmdaleyfi fer síðan á borð sveitarstjórnar Reykhólahrepps og eru vegagerðamenn að vonast til að leyfið fáist í sumar.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra skoðuðu Teigsskóg fyrir fjórum árum.Vísir/Daníel
„Ég á ekki von á því að það verði byrjað af einhverjum krafti á þessu ári. En um leið og niðurstaða fæst í það mál munum við reyna að fara af stað þar. Það hafa verið áform um það,“ segir Jón. 

En það voru einnig skornar 400 milljónir króna af vegagerð um Dynjandisheiði sem talin er forsenda þess að Dýrafjarðargöng nýtist sem skildi. 

„Það er alveg rétt. Hún þarf að byggjast upp svona samhliða eða í kjölfarið á Dýrafjarðargöngum, hvort sem það verður með göngum efst í þeirri heiði eða hvort það verður uppbyggður vegur. Og ég geri ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við það á framkvæmdatíma Dýrafjarðarganga,“ segir ráðherra samgöngumála.

Horft af Dynjandisheiði niður í Arnarfjörð. Dynjandisvogur er næst.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×