Viðskipti innlent

Vegur um Teigsskóg leysi af Ódrjúgsháls eftir 3-4 ár

Kristján Már Unnarsson skrifar
Vegamálastjóri vonast til að vegagerð um hinn umdeilda Teigsskóg á Vestfjörðum verði boðin út fyrir áramót og að endurskoðun umhverfismats ljúki í sumar. Þetta kom fram í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í kvöld sem sjá má hér að ofan. 

Þetta virðist vera sagan endalausa, deilurnar um hvort Vestfjarðavegur um Gufudalsveit verði lagður um Teigsskóg. Þegar vegamálaráðherra síðustu ríkisstjórnar, Ögmundur Jónasson, sagði nei strunsuðu Vestfirðingar út á mótmælafundi á Patreksfirði.

Húsmæður á Vestfjörðum mótmæltu með búsáhöldum á frægum fundi á Patreksfirði haustið 2011 þeirri stefnumörkun Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi innanríkisráðherra, að hafna vegi um Teigsskóg.Mynd/Egill Aðalsteinsson
Eitt fyrsta verk eftirmanns hans, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, var að skoða skóginn með eigin augum og setja vegagerð um hann aftur í ferli en hún lenti fljótlega í hindrunum sem hún kallaði stjórnsýsluflækju. Núna, þremur árum síðar, sér vegamálastjóri fram á að greiðast sé úr flækjunni, það hylli undir nýtt umhverfismat eftir að Skipulagsstofnun heimilaði endurupptöku þess í fyrra. 

„Það er nýbúið að senda fyrstu drög að nýrri skýrslu til Skipulagsstofnunar til skoðunar. Við erum að vonast til þess að það verði í sumar sem að því formlega ferli lýkur, vonandi með jákvæðri niðurstöðu. Ef allt gengur eftir, sem við höfum verið að vonast eftir, þá væri hægt að fara af stað með það verkefni í framkvæmdum strax næsta vor,” segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.

Leiðin sem Vegagerðin vill fara með Vestfjarðaveg til að losna við Ódrjúgsháls og Hjallaháls.
Þetta þýðir að bjóða þarf verkið út fyrir áramót. Veglínu um Teigsskóg hefur verið breytt frá því sem áður var. 

„Þannig að það er mun minna rask á skóginum, eða kjarrinu, núna heldur en í eldri línum. Að öðru leyti verður bara fylgt þeim línum yfir firðina sem áður var búið að hanna og undirbúa.” 

En í ljósi tíu ára deilna um Teigsskóg, er líklegt að tillagan nái núna í gegn?

„Ég hef trú á því, já. Það þarf náttúrlega fyrst þetta umhverfismatsferli og síðan þarf framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar, sem ég held að verði nú ekki torsótt. Síðan þarf náttúrlega líka að ræða við landeigendur og fara í gegnum það ferli allt saman. En ég hef nú trú á því að þetta gangi upp, eins og við höfum verið að vonast til undanfarin misseri , og við getum farið að byrja þarna framkvæmdir á næsta ári.”

Ekið niður Ódrjúgsháls í Gufudalssveit.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Gangi það eftir losna vegfarendur við tvo erfiða fjallvegi, um Ódrjúgsháls og Hjallaháls, eftir 3-4 ár. 

„Um svipað leyti eða jafnvel fyrr en Dýrafjarðargöngin opna, 2019 eða 2020, eitthvað svoleiðis. Þetta er stórverk,” segir vegamálastjóri um það hvenær hann búist við að nýi vegurinn verði tilbúinn.


Tengdar fréttir

Vilja skoða sérlög á vegarlagningu um Teigsskóg

Skipulagsstofnun hafnar tillögu Vegagerðarinnar um veg um Teigsskóg. Forseti Alþingis vill að þingið setji lög um vegarlagninguna. Formaður Byggðastofnunnar tekur undir. Skipulagsstofnun bundin að lögum, segir talsmaður stofnunarinnar.

Vegur um Teigsskóg aftur í umhverfismat

Skipulagsstofnun hefur fallist á beiðni Vegagerðarinnar um að endurskoða umhverfismat vegna hins umdeilda vegar um Teigsskóg í Þorskafirði.

Hanna Birna segir Teigskóg í stjórnsýsluflækju

Þingmenn eru sammála um að það þoli enga bið að finna leið til lausnar vegabóta á sunnanverðum Vestfjörðum. Innanríkisráðherra segir til greina að setja lög vegna málsins.

Allt annað en Teigsskóg, segir Ögmundur

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur fallið frá því að láta Vestfjarðaveg liggja yfir hálsana tvö í Gufudalssveit og er tilbúinn að skoða alla aðra kosti nema þann að fara í gegnum Teigsskóg. Kristján Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, segir að leiðin um Teigsskóg sé sú eina færa.

Skógræktarmenn rífast um vernd Teigsskógar

Stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún tekur fram að hún styðji ekki yfirlýsingu stjórnar Skógræktarfélags Íslands um vegagerð um Teigsskóg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×