Viðskipti innlent

Tryggvi Þór seldi sig út úr veitingastaðnum Bazaar

Haraldur Guðmundsson skrifar
Veitingastaðurinn Bazaar og hótelið Oddsson eru rekin í JL-húsinu.
Veitingastaðurinn Bazaar og hótelið Oddsson eru rekin í JL-húsinu. Vísir/GVA
Tryggvi Þór Herbertsson, fjárfestir og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, seldi tæpan helmingshlut sinn í veitingastaðnum Bazaar í október til hóps fjárfesta undir forystu athafnakonunnar Margrétar Ásgeirsdóttur og knattspyrnumannsins fyrrverandi Arnars Gunnlaugssonar. Viðskiptafélagi Tryggva, Guðjón Þór Guðmundsson, seldi þá einnig eignarhlut sinn í Bazaar og á fjárfestahópurinn nú allt hlutafé veitingastaðarins og hótelið Oddsson sem bæði eru rekin í JL-húsinu.

Þetta staðfestir Tryggvi Þór í samtali við Markaðinn og svarar aðspurður að hann og Guðjón Þór hafi átt alls 80 prósent í félaginu JL veitingar ehf. Margrét og meðfjárfestar hennar hafi komið inn í hluthafahóp félagsins í byrjun 2016 og þá keypt 20 prósent. Veitingastaðurinn var opnaður í byrjun síðasta sumars.

„Ég er búinn að selja þessa fjárfestingu en hinir eigendurnir keyptu mig út. Ég var aldrei annað en fjárfestir þarna og er bara í þessum ráðgjafarbissness sem ég er búinn að vera í síðan ég sat á þingi,“ segir Tryggvi og svarar aðspurður að hann einbeiti sér nú meðal annars að verkefnum fyrir fjármálafyrirtækið Gamma.

Margrét Ásgeirsdóttir á helmingshlut í JL Holding, eiganda JL-hússins, í gegnum félag sitt S9 ehf. Hin 50 prósentin eru í eigu Loftsson Holding ehf. en endanlegir eigendur þess eru Lárus Sighvatur Lárusson og Stefán Arnalds. Arnar Gunnlaugsson tók við stjórnarformennsku í JL veitingum af Tryggva Þór þegar viðskiptin gengu í gegn um miðjan október og eru hann og Margrét einu stjórnarmenn þess.

Hluthafalisti JL veitinga hefur ekki verið uppfærður hjá fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra (RSK). Eins og sjá má á tilkynningu um breytingu á stjórnarskipan félagsins til RSK kom til greina að veitinga- og sjónvarpsmaðurinn Ásgeir Kolbeinsson myndi setjast í stjórn JL veitinga. Nafn hans er á skjalinu en búið er að strika yfir það. Ekki náðist í Margréti eða Arnar við vinnslu fréttarinnar. 

Uppfært kl. 10.50: Guðjón Þór Guðmundsson segir ekki rétt að bróðir hans Svavar Þór Guðmundsson hafi verið hluthafi í veitingastaðnum. Þrátt fyrir það var Svavar skráður fyrir 25% hlut í JL veitingum í árslok 2015 samkvæmt skráningu félagsins hjá fyrirtækjaskrá RSK.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×