Golf

Ólafía fær fastar greiðslur og bónus

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafía Þórunn var á Evrópumótaröðinni í fyrra en fer nú á LPGA.
Ólafía Þórunn var á Evrópumótaröðinni í fyrra en fer nú á LPGA. Mynd/LET/Tristan Jones
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, var í gær kynnt sem nýr merkisberi alþjóðlega fyrirtækisins KPMG á LPGA-mótaröðinni í Bandaríkjunum sem hún vann sér sæti á fyrir áramót.

Í gær var kynntur nýr styrktarsamningur KMPG á Íslandi við Ólafíu Þórunni en hún mun bera merki fyrirtækisins á derhúfu sinni á mótum héðan í frá. Aðrir merkisberar þessa risafyrirtækis eru ekki ómerkari kylfingar en Stacy Lewis og Phil Michelson.

„Það er mér mikill heiður að fá að njóta stuðnings svona virts fyrirtækis eins og KPMG sem hefur stutt dyggilega við kvennagolf undanfarin ár. Ég get ekki beðið eftir að verða þeirra fulltrúi og um leið fulltrúi Íslands þegar ég byrja feril minn á þessari sterkustu mótaröð í heimi,“ segir Ólafía Þórunn.

Jón S. Helgason, framkvæmdastjóri KPMG á Íslandi, segir í samtali við Fréttablaðið að styrkurinn sé þannig að Ólafía fái bæði fastar greiðslur og einnig árangurstengdan bónus.

Hún fær greiðslu á hverju ári sem hjálpar henni mikið að borga ferðalög og uppihald en peningurinn frá KPMG er þó ekki eyrnamerktur neinu sérstöku. Ólafía ráðstafar honum að vild.

Þetta er mikil búbót fyrir þessa framtíðarstjörnu en samningurinn er til þriggja ára.

„Við hlökkum mikið til að fylgjast með henni á komandi keppnistímabili og vonum að henni vegni vel, bæði innan golfvallar og utan sem golfmerkisberi KPMG,“ segir Jón S. Helgason.


Tengdar fréttir

Ólafía Þórunn merkisberi KPMG

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttur verður merkisberi KPMG á LPGA mótaröðinni samkvæmt nýjum alþjóðlegum stuðningssamningi hennar við endurskoðendarisann hollenska. Ólafía Þórunn mun því vera með logo KPMG framan á derhúfu sinni þegar hún keppir á LPGA 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×