Innlent

Skiptinemi varð fyrir kynferðisofbeldi: "Ég hafði engan til að segja frá því“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
AFS eru alþjóðleg fræðslusamtök sem sjá um nemendaskipti út um allan heim. Samtökin útvega nemum fósturfjölskyldu, trúnaðarmanni og stuðningsneti á meðan dvölinni stendur. Margrét Einarsdóttir, móðir Möggu Dísar sem fór til Perú sem skiptinemi á síðasta ári, borgaði ríflega eina og hálfa milljón fyrir dvölina en ítarlegt viðtal við mæðgurnar má sjá í spilaranum hér að ofan. 

„Maður kaupir skiptinemadvöl fyrir barnið sitt hjá AFS og inni í því er flugfar, tryggingar og eiga að vera skólagjöld. Fjölskyldan fær engan pening en fyrst og fremst er það öryggisnetið sem ég held að flestir foreldrar eru að kaupa,“ segir Margrét og bætir við að hún gæti látið stelpuna sína fá þennan pening og hún myndi lifa kóngalífi á þessum slóðum fyrir hann. 

„Það sem maður er að kaupa er fyrst og fremst öryggi. Þeir klikka nánast í öllu sem þeir lofuðu.”

Fékk aldrei trúnaðarmann

Fyrsti stuðningur við skiptinemann er fjölskyldan sem í sjálfboðaliðastarfi tekur á móti honum en fjölskylda Möggu Dísar brást algjörlega eins og síðar kemur fram.

Næsti stuðningur er trúnaðarmaður skiptinemans. Magga Dís segist aldrei hafa fengið trúnaðarmann.

Á hverju svæði starfar síðan forseti sem hefur yfirumsjón með skiptinemum á svæðinu, sem Magga Dís segir hafa verið óhæfa í sínu starfi.

„Hún var bara ekki traust, fór í vörn og fór að öskra á mig ef ég vildi tala við hana. Ég fann aldrei að ég væri örugg eða gæti leitað hjálpar þarna úti. Ég fór margsinnis grátandi út frá henni,” segir Magga Dís.

Mikil óánægja var meðal allra skiptinemanna með forsetann og skrifaði Magga Dís bréf til aðalskrifstofu AFS í Lima til að fá aðstoð en hún fékk aldrei svar við bréfi sínu.

Margrét, móðir Möggu Dísar, hringdi ítrekað á skrifstofu AFS á Íslandi til að láta vita af stöðunni en þá var bent á að Magga Dís ætti að tala við AFS í Perú.

„Ég skil að skrifstofan á Íslandi geti ekki alltaf verið að skipta sér af. En maður heldur að kerfið úti virki, en það virkar á engan hátt. Þá verður náttúrulega AFS á Íslandi að gera eitthvað. Hver á annars að gera eitthvað?” spyr hún.

Föst undir sama þaki og ofbeldismaðurinn

Þessi skortur á stuðningi hafði fyrst alvarlegar afleiðingar þegar ráðist var á Möggu Dís.

„Fósturbróðir minn beitti mig kynferðisofbeldi. Þetta er 27 ára gamall maður sem hafði búið með mér í hálft ár. Ég hafði engan til að segja frá því þannig að ég hélt því inni í mér. Ég gat ekki haft samband við AFS í Perú til að hjálpa mér því það var ekkert tengiliðakerfi,” segir Magga Dís.

Hún var því föst undir sama þaki og ofbeldismaðurinn og þorði ekki að hlaupa ein út þar sem hún bjó í afar hættulegu hverfi. Það eina sem mamma hennar gat gert var að tala við hana á Skype.

„Þegar hún varð fyrir kynferðisofbeldinu setur AFS á Íslandi af stað neyðaráætlun. En málið er að það var ekkert hægt að framkvæma neyðaráætlunina því það var ekkert í kringum dóttur mína. Hún var gjörsamlega ein í heiminum þarna,“ segir Margrét.

Þegar skrifstofan á Íslandi fékk að vita af atvikinu sá framkvæmdastjóri AFS á Íslandi til þess að Magga Dís var flutt til nýrrar fjölskyldu í Lima. Hann var einnig í stöðugu sambandi við Möggu Dís og setti hana í samband við sálfræðing sem hún talaði við í gegnum Skype.

„Ég talaði við hana þrisvar á þessum mánuðum en svo yfirgaf hún mig eftir það. Hún hætti að tala við mig og hætti að svara mér,” segir Magga Dís.

Lögreglu aldrei gert viðvart

Margrét hefur gert kröfu um að fá þátttökugjöldin endurgreidd þar sem AFS hafi ekki staðið við sinn hluta samningsins. Því hefur AFS á Íslandi hafnað með þeim rökum að brugðist hafi verið rétt við kynferðisofbeldinu, að Magga Dís hafi fengið sálfræðistuðning, fengið nýja fjölskyldu og boðið að ljúka dvölinni en Magga Dís þáði það ekki þar sem hún vildi reyna að gera gott úr dvöl sinni.

Þess skal getið að lögreglu var aldrei gert viðvart og Möggu Dís ekki gefið tækifæri til að kæra ofbeldið.

„Mér finnst eins og ég hafi borgað þennan pening til að fá nógu mikið af andvökunóttum í eitt ár, nógu mikið af áhyggjum og nógu mikið af stressi. Og niðurlægingu. Það var það sem ég upplifi þegar ég hringi á skrifstofu AFS og fæ svör eins og ég sé ein nöldrandi mamman í viðbót,” segir Margrét.

Möggu Dís finnst erfitt að líta til baka til ársins sem hún dvaldi í Perú. „Það besta við dvölina er það sem ekki tengist AFS,” segir hún.

Að lokum sagði Magga Dís upp samningi sínum við AFS og kláraði dvölina á eigin vegum.

„AFS hringdi þrívegis í mig og bað mig að skipta um skoðun. Að meta afleiðingarnar af úrsögninni. Hvaða afleiðingar, spurði ég. Hún skráði sig sjálf í skólann, seinni fjölskyldan hefur boðið henni að vera áfram og ég er búin að kaupa tryggingar fyrir hana,” segir Margrét.

„En þá hringir forseti AFS í Lima í fósturmömmu hennar og biður hana um að henda Möggu Dís út. Það var öll umhyggjan sem AFS í Perú bar fyrir dóttur minni.”

AFS sendir árlega yfir hundrað íslenska skiptinema til útlanda sem dvelja hjá fósturfjölskyldum og treysta á stuðningskerfi samtakanna.

Allar athugasemdir teknar alvarlega

Við spurðum framkvæmdastjóra AFS á Íslandi hvort hann telji að Magga Dís hafi fengið nægan stuðning á meðan dvöl hennar stóð í Perú.

„Sérfræðingar okkar í New York, í áfallateyminu, hafa tekið málið til skoðunar og farið yfir hvort öllum verkferlum hafi verið fylgt og við starfað í samræmi við það sem okkur er uppálagt. Og já, þær upplýsingar sem við höfum sýna að öllum verkferlum hafi verið fylgt í hvívetna,” segir Guðmundur og bætir við að Magga Dís hafi verið með trúnaðarmann í landinu og það standist ekki þeirra upplýsingar að forseti svæðisins hafi ekki staðið sig í starfi.

En hvað finnst þér um það að starfsmaður AFS í Lima hafi hringt í fjölskyldu Möggu Dísar eftir að hún sagði sig úr samtökunum og sagt henni að henda henni út á götu?

„Ég veit ekki hvaðan þessar upplýsingar eru komnar. Þetta samræmist ekki upplýsingum sem við erum með þannig að ég ætla ekki að úttala mig um það.”

En hvað ef kerfið í Perú er ekki nógu gott. Er möguleiki að þið séuð ekki að fá réttar upplýsingar?

„Ég get ekkert fullyrt um það. En við byggjum á þeim gögnum sem við höfum í höndunum og við höfum enga ástæðu til að treysta ekki okkar samstarfsfélögum í þessu landi eða öðrum. Við vinnum á trausti og samvinnu, bæði við nemana og okkar kollega úti í heimi. Það var þannig í þessu tilviki og við höfum enga rökstudda ástæðu til að ætla annað.”

En ertu þá að gefa í skyn að þetta sé oftúlkun, dramatísering eða annað í stúlkunni?

„Ég gef mér ekki neitt í því sambandi. Og við tökum grafalvarlega allar athugasemdir sem koma frá okkar nemum og foreldrum. Við höfum alltaf gert það og þess vegna vinnum við málin á þessum grundvelli þannig að þú færð mig ekki til að fullyrða neitt í þá áttina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×