Handbolti

Dagur lýkur undirbúningi Þýskalands með leik gegn Patreki: „Hann er besti vinur minn“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagur Sigurðsson reynir við HM-gull.
Dagur Sigurðsson reynir við HM-gull. vísir/getty
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins í handbolta, varar við vanmati í fyrsta leik Evrópumeistaranna gegn Ungverjalandi þegar HM í handbolta fer af stað í næstu viku.

Dagur gerði Þýskaland óvænt að Evrópumeisturum í Póllandi á síðasta ári og vann svo brons á Ólympíuleikunum en liðið hefur leik gegn Ungverjalandi á HM á föstudaginn næstu viku.

„Við megum ekki gleyma að við mætum Ungverjalandi í fyrsta leik og það er mjög gott lið. Það er ekkert sjálfsagt að við komumst í úrslitaleikinn. Við verðum að taka þennan fyrsta leik mjög alvarlega,“ segir Dagur í viðtali við Sky Sports í Þýskalandi, en þýska liðið byrjaði ekki vel á EM í fyrra.

„Við verðum að vera mjög vel einbeittir fyrir mótið. Við töpuðum fyrsta leiknum á Evrópumótinu í fyrra en við lærðum af því og snerum leiknum eftir það okkur í hag þegar við vorum undir. Þetta eru hlutir sem þarf að takast á við á stórmótum.“

Þýskaland lýkur undirbúningi sínum fyrir HM með vináttuleik gegn Austurríki á mánudaginn í næstu viku en Patrekur Jóhannesson, fyrrverandi samherji Dags í íslenska landsliðinu, er þjálfari Austurríkismanna.

„Patrekur er besti vinur minn,“ segir Dagur. „Austurríki er lið á uppleið en það er að ganga í gegnum kynslóðaskipti. Þetta er sterkt lið með sterka kynslóð að koma upp. Austurríki heldur EM 2020 og er að búa til gott lið sem mætir til leiks þar. Ég óska þeim alls hins besta,“ segir Dagur Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×