Körfubolti

Kristófer: Sáum ekki til sólar í seinni hálfleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristófer skoraði fjögur stig í leiknum.
Kristófer skoraði fjögur stig í leiknum. vísir/ernir
Kristófer Acox átti erfitt með að leyna vonbrigðum sínum eftir 30 stiga tap Íslands fyrir Póllandi, 61-91, á EM í körfubolta í dag.    

„Þetta var leikurinn sem við vildum ná í. Þetta er mikið svekkelsi og átti ekki að enda í svona miklum mun. En við vorum ekki nógu góðir í seinni hálfleik,“ sagði Kristófer sem skoraði fjögur stig í leiknum.

„Við náðum einum góðum leikhluta. Við byrjuðum sterkt og vorum ákveðnir og keyrðum á körfuna eins og við vorum búnir að tala um að gera. En svo sáum við ekki til sólar í seinni hálfleik.“

Íslensku leikmennirnir áttu oftar en ekki í vandræðum með að halda boltanum í leiknum í dag. Keppnisboltinn er umdeildur en leikmenn liðanna á EM hafa kvartað mikið undan honum.

„Við vorum óheppnir að missa boltann út af. Jón [Arnór Stefánsson] talaði um það í fyrradag að það væri enginn sáttur með þessa tuðru. Ég veit ekki hversu marga tapaða bolta við erum með vegna þess að menn missa boltann því hann er sleipur. Þetta er lélegur bolti,“ sagði Kristófer og bætti því við að Pólverjarnir hefðu gert sér mat úr töpuðu boltunum hjá Íslendingum.

„Við vorum að spila á móti sterku liði og ef þú gefur þeim boltann eru þeir fljótir að refsa. Við fengum opin skot en þau fóru ekki ofan í. En við þurfum að halda áfram að vera ákveðnir.“


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Ísland – Pólland 61-91 | Strákarnir ískaldir í skotunum og töpuðu stórt

Mjög flott byrjun og frábær stuðningur í stúkunni dugði ekki íslenska körfuboltalandsliðinu á móti Póllandi í öðrum leik sínum á EM í Helsinki. Pólverjar unnu sig inn í leikinn, spiluðu af skynsemi á móti baráttuglöðum íslensku leikmönnum og unnu að lokum 30 stiga sigur, 91-61, eftir mjög sannfærandi seinni hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×