Erlent

Finnar hætta póstútburði á þriðjudögum

Atli Ísleifsson skrifar
Vonast er til að með breytingunni verði hægt að draga úr útgjöldum.
Vonast er til að með breytingunni verði hægt að draga úr útgjöldum. Vísir/Getty
Pósturinn í Finnlandi er hættur að bera út bréf á þriðjudögum. Í yfirlýsingu frá póstinum þar í landi segir að bréf sem póstlögð eru á mánudögum verði héðan í frá borin út á miðvikudögum.

Breytingin er liður í nýrri áætlun Póstsins sem tók gildi fyrir viku. Pósturinn mun framvegis einungis bera út dagblöð, pakka, hraðsendingar og rannsóknarsýni á þriðjudögum. Frá þessu greinir YLE.

Vonast er til að með þessu verði hægt að draga úr útgjöldum og segir í yfirlýsingunni að almenningur ætti ekki að taka eftir miklum mun þar sem magn pósts á þriðjudögum hefur í gegnum tíðina verið mun minna en á öðrum dögum.

Í lok síðasta mánaðar gerði finnska þingið breytingar á lögum í þá veru að Póstinum er nú heimilt að bera út póst einungis þrjá daga vikunnar. Pósturinn hefur þó enn ekki ákveðið að draga svo mikið úr póstútburði.

Pósturinn í Finnlandi hefur áður vakið athygli fyrir nýstárlega sýn sína á starfsemina, en Finnar geta meðal annars ráðið bréfbera til að sjá um að vökva blóm, slá grasblettinn og til að sinna ýmsum öðrum verkefnum á heimilum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×