Viðskipti innlent

Finnst furðulegt að hindra eigi stjórnarsetu hans í Fáfni

Ingvar Haraldsson skrifar
Fáfnir rekur eitt skip í dag, olíuþjónustuskipið Polarsyssel.
Fáfnir rekur eitt skip í dag, olíuþjónustuskipið Polarsyssel. Mynd/Havyard
Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og umsjónamaður Orkubloggsins, og Davíð Stefánsson, starfsmaður Íslandssjóða, dótturfélags Íslandsbanka, sækjast báðir eftir einu lausu sæti í stjórn Fáfnis Offshore á hluthafafundi í dag. Sjóðurinn Akur, sem er í rekstri Íslandssjóða, er stærsti hluthafi Fáfnis og íslenskir lífeyrissjóðir eru stórir hluthafar í.

Steingrímur Erlingsson, sem sagt var upp sem forstjóra Fáfnis í desember, og danska félagið Optima A/S, boðuðu til fundarins.

„Maður var pínulítið undrandi að frétta af því að þeir tilnefni einhvern annan í stjórn því það er beðið um þennan fund að beiðni Steingríms og Optima í Danmörku sem vilja koma inn sínum stjórnarmanni og þau eiga næstum 25 prósent í félaginu. Manni finnst furðulegt að aðrir hluthafar ætli að koma í veg fyrir það,“ segir Ketill.

Ketill Sigurjónsson, frambjóðandi til stjórnar Fáfnis.
Ekki þarf að kjósa nýja stjórn í heild sinni fyrr en á aðalfundi Fáfnis sem heimilt er að halda í síðasta lagi í lok ágúst á þessu ári. Því geta eigendur tæplega fjórðungs hlutafjár í Fáfni verið án fulltrúa í stjórn þangað til, hljóti Ketill ekki brautargengi á fundinum í dag.

DV greindi frá því í síðustu viku að stjórn Fáfnis hygðist leggja fyrir fundinn heimild til að breyta samþykktum félagsins svo félagið geti lagt í tæplega 200 milljóna króna skuldabréfaútgáfu á 20 prósenta vöxtum. Ketill segir að ráðgert sé að kaupendur bréfanna geti breytt þeim í hlutafé, sem numið geti allt að 60 prósenta hlut í Fáfni. Til saman­burðar nemur hlutaféð sem áður hefur verið í Fáfni tæpum þremur milljörðum króna. Samkvæmt heimildum Markaðarins hafa núverandi hluthafar forkaupsrétt til þess að skrifa sig fyrir skuldabréfinu í hlutfall við eign sína í Fáfni.

Þá segir Ketill einnig tillögu liggja fyrir fundinum um að færa skipið Fáfni Viking, sem enn er í smíðum, inn í sérstakt félag sem yrði dótturfélag Fáfnis, auk þess að leggja eigi fram tölvupósta sem Steingrímur sendi í starfi sínu.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.