Fastir pennar

Breytum okkur sjálfum

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Konur borga að meðaltali 7%hærra verð en karlar fyrir sambærilegar vörur. Neytendastofnun í New York í Bandaríkjunum greindi frá þessum niðurstöðum í desember en Fréttablaðið greindi frá óútskýrðum verðmun hér á landi á sambærilegum vörum sem beint er að sitthvoru kyninu.

Í ljós kom að töluverður verðmunur getur verið hér á landi á sambærilegum vörum, oft og tíðum nánast sömu vörunni, eftir því hvort hún er markaðssett fyrir konur eða karla. Tekin voru dæmi af ungbarnagöllum, ilmvötnum, rakvélum, klippingum, dúnúlpum og öðru sem sýndi svo ekki verður um villst að konur greiða hærra verð fyrir sínar vörur en karlar.

Verðmunur þessi hefur verið nefndur bleikur skattur, og snýr annars vegar að vörum sem eru verðlagðar hærra af söluaðilum til kvenna en karla og hins vegar skattur sem stjórnvöld leggja á vörur sem einungis eru ætlaðar konum.

Þessum eiginlega skatti sem stjórnvöld leggja á kvennavörur hefur undanfarið verið mótmælt, meðal annars af þingmönnum. Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar lögðu í desember fram frumvarp þar sem lagt er til að skattur á túrtappa og dömubindi verði færður í lægra skattþrep. Takmörkuð rök eru fyrir því að þessar vörur séu hafðar í hærra skattþrepi. Raunar á það við margar vörur að hending virðist ráða hvar þær lenda. Fjármálaráðherra hefur sagt að verið sé að vinna að einföldun skattkerfisins og fækkun undanþága. Skref var tekið fyrr á kjörtímabilinu í þá átt þegar almenna þrepinu var breytt í 24 prósent.

Hinum „skattinum“, sem er auðvitað ekki skattur heldur verðlagning sem mismunar eftir kyni, verður ekki svo glatt breytt með lögum, heldur hugarfarsbreytingu. Íslendingar eru líklega með verri neytendafrömuðum í heimi. Við fussum og sveium yfir olíuverðshækkunum og förum síðan rakleiðis og látum fyll’ann. Verðhækkanir í sund, bíó, á matarkörfunni eða annars staðar hafa lítil áhrif á hegðun okkar sem neytenda. Sumt er það sem við getum ekki verið án, annars gætum við vel verið án en kjósum að vera það ekki. Mikilvægi eða öllu heldur lítilvægi stöðu neytendamála okkar kristallast vel innan stjórnkerfisins, þar sem ráðherra neytendamála er einnig dóms- og kirkjumála, fangelsismála, fjarskipta- og mann­réttinda­ráðherra sem og samgöngu- og öryggismálaráðherra ásamt öðru. Neytendamálin verða eðli málsins samkvæmt útundan.

Veruleg vakning þarf að verða meðal neytenda. Smásalar þurfa að fara yfir verðlista sína og athuga hvort þeir verðleggi bleiku vörurnar hærra en þær bláu og af hverju. En þeir munu ekki gera það án þrýstings frá neytendum. Jarðvegurinn er svo sannarlega til staðar, það sýnir áhuginn. En tengslin milli áhugans og pyngjunnar virðast vera rofin – því þarf að breyta. Og við breytum því með því að breyta okkur sjálfum.


Tengdar fréttir

Bleikur skattur: Konur borga meira fyrir það sama

Að meðaltali borga konur 7% meira en karlar fyrir sambærilegar vörur. Einföld, óformleg vettvangsrannsókn leiddi í ljós að mörg slík dæmi er að finna hér á landi. Í þessari umfjöllun birtast nokkur þeirra.






×