Skoðun

Framsækin atvinnustefna VG

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Samhliða búvörusamningunum, sem fráfarandi ríkisstjórn gerði í haust, var komið inn endurskoðunarákvæði. Það viljum við í Vinstri grænum nýta vel og ná sátt um breytingar í landbúnaði. Þar eiga umhverfismálin að vera í forgrunni. Það er skylda okkar að huga að loftslagsmálum, því vistspori sem landbúnaðurinn myndar, en það á ekki síður við þegar kemur að innflutningi, en 13 prósent af útblæstri gróðurhúsalofttegunda í heiminum eru tilkomin vegna vöruflutninga.

Það er gríðarlega mikilvægt að huga að dýravelferð og neytendavernd, þegar kemur að landbúnaði. Það gerum við með því að gera strangar kröfur um innlenda framleiðslu og huga vel að því hvernig styrkjum er háttað til hennar. Hvað innflutning varðar þarf uppruni að vera á hreinu og þar með þær aðstæður sem eru við framleiðsluna í landinu sem framleitt er, ekki síðasta viðkomustað á leiðinni til Íslands. Þannig gefst neytendum val. Við getum ekki talað fyrir dýravelferð heima fyrir, en stutt við slæman aðbúnað í öðrum löndum með því að flytja vörur úr slíkri framleiðslu inn. Vinstri græn hafa verið tilbúin til breytinga í sjávarútvegi og hafa þá stefnu að hluti aflaheimilda eigi að leigjast út á opinberum leigumarkaði.

Við höfum viljað horfa til þess sem frændur okkar Færeyingar eru að gera með tilraunum í uppboði á aflaheimildum, en þar, eins og í landbúnaði, teljum við að umhverfismál eigi að skipta miklu. Sjávarútvegur verður að þróast enn frekar í átt til umhverfisvænna veiða og vinnslu.

Auðlindir hafsins eiga að vera sameign þjóðarinnar. Nokkuð rík samstaða hefur verið um það, a.m.k. á hátíðarstundum. En hvað þýðir það í raun? Við í Vinstri grænum teljum að það þýði að nýtingarréttur verður leigður út til skamms tíma, en eignarhaldið verði opinbert. Nýtingarréttur til langs tíma, áratuga jafnvel, getur nefnilega myndað hefðarrétt.

Vinstri græn telja að nú sé lag að koma umhverfissjónarmiðum enn frekar að þegar að atvinnumálum kemur. Það á bæði við hinar hefðbundnari greinar, en einnig nýrri greinar. Það er raunveruleg framsækni.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Sjá meira


×