Bjuggu við fátækt vegna sósíalisma
Frá árinu 2008 þegar Raul Castro, bróðir Fidels, tók við hafa orðið umbætur í hagkerfinu og talið er líklegt að sú þróun haldi áfram.
Margir telja að Fidel Castro hafi í sinni fimmtíu ára valdatíð valdið miklum efnahagslegum skaða í landi þar sem miklir möguleikar eru á hagvexti. Ellefu milljónir íbúa Kúbu hafa þurft að búa við fátækt, að mati sumra, vegna sósíalismans.
Árið 1959 þegar Castro kom til valda var landsframleiðsla á mann á Kúbu um 2.067 dollarar á ári, þetta var þá um tveir þriðju af meðaltalinu innan Rómönsku Ameríku og aðeins hærra en í Ekvador. Árið 1999 var landsframleiðslan tiltölulega óbreytt eða um 2.307 dollarar á mann á Kúbu, til samanburðar var hún orðin 5.618 dollarar í Panama og 3.809 í Ekvador samkvæmt tölum Forbes.

Al Jazeera greinir frá því að ólíklegt sé að fráfall Castros hafi í för með sér róttækar breytingar á eyjunni, til skamms tíma litið. Tomas Bilbao, ráðgjafi hjá Engage Cuba samsteypunni, segir í samtali við fréttaveituna að fráfall Castros gæti auðveldað umbætur á Kúbu en hins vegar muni skriffinnska og íhaldssemi hjá hluta ríkisstjórnarinnar sennilega draga úr hraða þeirra.
Á síðustu átta árum hefur Raul Castro opnað fyrir frumkvöðlastarfsemi í landinu og rólega breytt hagkerfinu. Kúbverjar hafa getað rekið eigin veitingastaði og gistirými, og fengið hærri laun fyrir betri afköst. Einnig hefur hann unnið að því ásamt Obama Bandaríkjaforseta að liðka fyrir viðskipti milli ríkjanna. Í frétt Telegraph um málið segir að líkur séu á að hann verði enn djarfari eftir fráfall Fidels. Jaime Suchlicki, prófessor við Miami háskóla í Bandaríkjunum, telur þó að Raul muni ekki opna Kúbu fyrir markaðnum þar sem hann sé sósalisti í hug og hjarta.
Bandarískir greiningaraðilar hafa trú á að samband ríkjanna tveggja muni halda áfram að batna og að hagkerfi Kúbu muni halda áfram að þróast úr sósíalisma í markaðshagkerfi.
Trump vill meira frelsi á Kúbu
Margir óvissuþættir ríkja þó enn. Donald Trump mun taka við sem forseti Bandaríkjanna, en hann hefur talað fyrir því að bæta ekki viðskiptasamband Bandaríkjanna og Kúbu nema pólitískt og trúarlegt frelsi aukist á Kúbu. Um 4,3 prósenta hagvöxtur mældist á Kúbu árið 2015 en það dró hins vegar úr honum á þessu ári. Árið 2013 var gefið loforð um að sameina gjaldmiðlanna tvo sem notaðir eru á Kúbu en enn hefur það ekki tekist.
Al Jazeera greinir frá því að helsta útflutningsgrein Kúbu síðustu ár hafi verið læknar sem hafi þjónustað ríkari lönd og skilað milljörðum dollara í ríkiskassann. Þörf sé á að efla útflutning á öðrum sviðum til að bæta efnahagsástandið, tækifæri séu til að mynda í landbúnaði.