Viðskipti innlent

Þorsteinn Már kærir starfsfólk Seðlabankans

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur kært þau Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóra, og Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, fyrir meint brot gegn sér.

Þorsteinn metur það sem svo að fyrrnefndir starfsmenn hafi leitast við að „koma því til leiðar með rangfærslum, villandi málatilbúnaði og ófullængjandi upplýsingum“ að hann yrði sakaður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað eins og greint er frá í Morgunblaðinu í dag.

Þar er einnig tiltekið að Þorsteinn telji þau Arnór og Ingibjörgu hafa misnotað stöðu sína sem opinberir starfsmenn með ofangreindum hætti, sem og með því að hafa ekki komið „fullnægjandi upplýsingum til embættis sérstaks saksóknara“ þegar það rannsakaði mál á hendur honum. 

Þá er þess einnig farið á leit í kærunni að hlutur annarra starfsmanna bankans í máli Samherja verði rannsakaður. Þar er sérstaklega vísað til seðlabankastjórans Más Guðmundssonar og Sig­ríðar Loga­dótt­ur, yf­ir­lög­fræðings bank­ans. „Stjórn­skipun­ar­leg staða þeirra inn­an bank­ans“ kalli á slíka rannsókn. Þorsteinn hefur áður sagt að hann telji að málatilbúnaðinn megi rekja til persónulegs illvilja Más í garð Samherja.

Sjá einnig: Þorsteinn Már: Seðlabankinn ítrekað orðið uppvís að ósannindum

Í lok mars 2012 var gerð húsleit í höfuðstöðvum Samherja bæði á Akureyri og í Reykjavík. Það voru starfsmenn Seðlabanka Íslands sem framkvæmdu húsleitina vegna gruns þeirra um brot á lögum og reglum um gjaldeyrismál.

Í framhaldinu kærði Seðlabankinn Samherja og tengd fyrirtæki fyrir brot gegn gjaldeyrislögum til Embætti sérstaks saksóknara.

Embættið sendi málið aftur til Seðlabankans þar sem ekki var heimilt kæra fyrirtæki. Í framhaldinu kærði bankinn einstaklinga innan fyrirtækisins það er Þorstein Má Baldvinsson forstjóra fyrirtækisins og þrjá aðra lykilstarfsmenn fyrir að brjóta gegn gjaldeyrishöftunum. Meint brot vörðuð sektum eða allt að tveggja ára fangelsi. Við tók rannsókn á málinu sem sem lauk í fyrravor, rúmum þremur árum eftir að hún hófst.

Málið var svo fellt niður í september í fyrra. Fræðast má meira um niðurfellinguna hér að neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×