Skoðun

Hætta á skerðingum vegna lífeyrissjóða

Björgvin Guðmundsdóttir skrifar
Æ fleiri taka nú undir kröfuna um, að skerðingar lífeyris almannatrygginga vegna lífeyrissjóðsgreiðslna verði afnumdar. Fleiri og fleiri gera sér einnig ljóst, að það átti aldrei að samþykkja eða loka augunum fyrir því, að ríkið færi að skerða tryggingalífeyri vegna lífeyrissjóðanna. Það gekk alveg í berhögg við það, sem um var talað, þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir en þá var það skýrt tekið fram og undirstrikað, að lífeyrissjóðirnir ættu að vera viðbót við almannatryggingar. Þetta hefur verið þverbrotið. Lífeyrisfólk á ekki að hjálpa ríkinu, þegar það lendir í fjárhagserfiðleikum. Það er að snúa hlutunum við. Ríkið á að hjálpa lífeyrisfólki.

Eldri borgarar eiga peningana í lífeyrissjóðunum

Ríkisvaldið lætur eins og það sé að veita öldruðum kauphækkun, þegar það dregur aðeins úr skerðingum! En það er engin kauphækkun. Þetta er miklu líkara því, þegar þýfi er skilað að hluta til baka. Eldri borgarar eiga peningana í lífeyrissjóðunum, sem þeir hafa sparað þar alla sína starfsævi. Þeir gera kröfu til þess að strax verði hætt að skerða óbeint þennan lífeyri með aðgerðum ríkisvaldsins. Ég kalla það óbeina skerðingu lífeyris í lífeyrissjóðunum, þegar lífeyrir, sem eldri borgarar eiga að fá frá Tryggingastofnun, er skertur beinlínis vegna þess að eldri borgarar fá lífeyri úr lífeyrissjóðum. Þessu verður að linna.

Auðvelt að afnema skerðingarnar nú

Tryggingastofnun og ríkisvaldið segja, að það sé dýrt að afnema þessa skerðingu. En það er ekki mál lífeyrisfólks. Ríkið verður að taka á sig þann kostnað, sem er því samfara að afnema skerðingarnar. Ríkisvaldið gumar af góðum fjárhag og góðu efnahagsástandi um þessar mundir og því ætti að vera auðvelt að afnema skerðingarnar nú. Ríkið hefur einnig haft af öldruðum og öryrkjum stórar fjárhæðir undanfarin ár og áratugi, nú síðast með því að svíkja stór kosningaloforð stjórnarflokkanna, sem öldruðum og öryrkjum voru gefin 2013.

Fyrir síðustu kosningar höfðu tveir flokkar það á stefnuskrá sinni að afnema ætti alveg allar skerðingar, þ.e. Píratar og Flokkur fólksins. En allir flokkarnir vildu draga verulega úr skerðingum. Píratar fengu 10 þingmenn kjörna, bættu við sig sjö þingmönnum. Það má því segja, að stuðningur við afnám skerðinga sé verulegur þar. Flokkur fólksins bauð í fyrsta sinn fram og fékk 3,5% atkvæða. Félag eldri borgara í Reykjavík, sem er langstærsta félag eldri borgara, berst fyrir því, að skerðingar verði alveg afnumdar. Stuðningur við þetta mál er því mikill. Það þolir enga bið að koma því í framkvæmd.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×