Viðskipti innlent

Landsbankinn gleymdi líklegast að spyrja forsvarsmenn Borgunar út í Visa Europe

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Steinþór Pálsson Landsbankastjóri.
Steinþór Pálsson Landsbankastjóri. vísir/Daníel
Í drögum að skýrslu sem Ríkisendurskoðun vinnur nú að vegna sölu Landsbankans á hlut sínum í kortafyrirtækinu Borgun kemur fram að á fundum með stofnuninni í ágúst og september síðastliðnum hafi Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, viðurkennt að bankinn hafi að öllum líkindum gleymt að spyrja forsvarsmenn Borgunar út í Visa Europe.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag en mikill styr hefur staðið um sölu Landsbankans í Borgun. Landsbankinn seldi 31,2 prósenta hlut í Borgun á 2,2 milljarða til hóps fjárfesta og stjórnenda Borgunar í nóvember 2014.

Í lok síðasta árs kom í ljós að Borgun fengi milljarðagreiðslur vegna valréttar sem Visa International nýtti til að kaupa Visa Europe, en talið er að upphæðin geti numið rúmlega níu milljörðum króna. Valrétturinn var ekki lagður til grundvallar þegar bankinn seldi hlut sinn í kortafyrirtækinu.

Landsbankinn hefur ítrekað haldið fram að hann hafi aldrei haft vitneskju um að Borgun ætti rétt á greiðslum yrði valrétturinn nýttur, og í ágúst síðastliðnum var tilkynnti að bankaráð bankans hefði ákveðið að höfða mál fyrir dómstólum vegna sölunnar á eignarhlut bankans í Borgun hf. á árinu 2014. Í tilkynningu kom fram að bankaráðið telji að bankinn hafi farið á mis við fjármuni í viðskiptunum þar sem bankanum hafi ekki verið veittar nauðsynlegar upplýsingar.

Morgunblaðið í dag greinir síðan frá því að í skýrsludrögum Ríkisendurskoðunar komi fram Landsbankinn hafi gengist við því að starfsmenn hans hafi ekki skoðað gögn sem þeir fengu aðgang og forsvarsmenn Borgunar höfðu lagt fram í gagnaherbergi sem var opnað eftir undirritun kaupsamnings.

Telur Ríkisendurskoðun að vegna þessa sé ábyrgð bankans mikil en í gögnunum hafi meðal annars sýnt „með óyggjandi hætti fram á aðild Borgunar að Visa Europe,“ eins og það er orðað á forsíðu Morgunblaðsins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×