Skoðun

Af kjaramálum tónlistarskólakennara og annarra opinberra starfsmanna

Guðríður Arnardóttir skrifar
Tónlistarskólakennarar hafa verið samningslausir í tæpt ár. Krafa þeirra er hógvær, þau vilja fá sömu laun og aðrir kennarar. 

Tónlistarskólakennarar fóru í langt og erfitt verkfall fyrir tveimur árum og mátti glöggt finna þann mikla stuðning sem þau fengu í samfélaginu enda tónlistarskólar hluti af menntakerfinu og þar er enginn einn hlekkur minna mikilvægur en annar. 

Kennarasamband Íslands og Bandalag háskólamanna töldu hagsmunum sínum ekki borgið með aðild að rammasamkomulagi um launaþróun sem skrifað var undir af aðilum vinnumarkaðarins haustið 2015. Ástæðan var (fyrir utan fyrirhugaðar skerðingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna) að stærstum hluta til vegna þess að launasetning þessara hópa hefði áfram verið slök í samburði við hópa með sambærilega menntun innan rammans. 

Aldrei hef ég heyrt fulltrúa sveitarfélaganna eða aðra sem hafa um málið að segja fullyrða að það sé í lagi að tónlistarskólakennarar séu 15% lægri í launum en aðrir kennarar með sömu menntun. Og mér vitanlega hefur samningsfrelsi okkar opinberra starfsmanna ekki verið tekið af okkur, að minnsta kosti ekki í orði. En er það í reynd?  

Getur verið að við, opinberir starfsmenn, verðum nú látin sitja samningslaus og þannig verðum við barin til hlýðni og barið í gegn áframhaldandi láglaunastefna opinberra starfsmanna og skerðingar á lífeyrisréttindum?

Það sýnir litlar efndir á þeim hluta nýs vinnumarkaðslíkans og fyrirhuguðum breytingum á lögum um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna að laun þeirra skuli jafna við almenna markaðinn. Hvernig væri að byrja á þeim enda?  Hvernig væri að sýna vilja í verki og semja við þá stétt opinberra starfsmanna sem hefur verið lengst samningslaus og hvers laun eru lægri en allra annarra menntastétta?

Það væri ágætis byrjun á vegferð sem flestir eru sammála um að við verðum að hefja.

 
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.