Viðskipti innlent

Neyðarlánið til Kaup­þings aldrei verið rann­sakað sem umboðssvik

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Neyðarlán Seðlabankans til Kaupþings hinn 6. október 2008 hefur aldrei verið til rannsóknar hjá saksóknara. Meint umboðssvik ná til embættismanna en Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir engan hafa fengið stöðu sakbornings við rannsókn á láninu.



Til þess að hægt að sé að dæma einstakling fyrir umboðssvik þurfa þrjú skilyrði að vera uppfyllt.



1. Ákærði þarf að hafa aðstöðu á hendi sem skuldbindur annan, til dæmis umboð í krafti stöðu sinnar.

2. Hann þarf að misnota þessa aðstöðu sem hann hefur.

3. Af háttsemi ákærða þarf að vera veruleg fjártjónshætta.



Jónatan Þórmundsson, prófessor emeritus við lagadeild HÍ, lýsir þessu svona: „Verknaðarlýsing 249. gr. hgl. miðast við, að umboðssvikaverknaður sé fullframinn við misnotkun aðstöðu. Nánar tiltekið er misnotkun yfirleitt fólgin í ólögmætri ráðstöfun fjárverðmæta, þ.m.t. undirritun skuldbindingar. Nægilegt er að hagsmunum annarra sé stefnt í hættu með skuldbindingu, endanlegt tjón þarf ekki að hafa hlotist af ráðstöfun geranda.“ (Þættir um auðgunarbrot, bls. 224). 

Svona hefur ákvæðið verið skýrt af fræðimönnum og í dómaframkvæmd Hæstaréttar. Öll þrjú skilyrðin þurfa að vera uppfyllt til að hægt sé að sakfella fyrir fullframið brot. Í Vafningsmálinu svokallaða taldi Hæstiréttur að þriðja skilyrðið um verulega fjártjónshættu hafi ekki verið fyrir hendi og því voru ákærðu í málinu sýknaðir.

Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp níu dóma þar sem ákært var fyrir umboðssvik í málum sem tengjast bankahruninu. Í sjö þessar mála var sakfellt en í tveimur málum voru ákærðu sýknaðir. Í flestum tilvikum er Hæstiréttur að dæma fyrir óábyrgar lánveitingar þar sem ákærði er talinn hafa farið út fyrir umboð sitt með láni, brotið lánareglur bankans og þar með misnotað aðstöðu sína og valdið umbjóðandanum, viðkomandi banka, verulegri fjártjónshættu eða fjártjóni með háttseminni.

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir umboðssvik í desember í fyrra meðal annars vegna þess að veð á bak við lán sem Landsbankinn veitti þóttu ekki nothæf.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka, var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í Al-Thani málinu. Svona má lengi telja.

Í vikunni greindu fréttastofa Stöðvar 2 og Kastljós RÚV frá skýrslustöku yfir Sturla Pálssyni sem er framkvæmdastjóri hjá Seðlabankanum og var viðstaddur þegar Davíð Oddsson þáverandi seðlabankastjóri hringdi í Geir Haarde daginn örlagaríka 6. október 2008.

Skýrslan af Sturlu hjá saksóknara var gerð í tengslum við vitnisburð hans í öðru óskyldu máli þar sem skilasvik voru til rannsóknar. Í framburði Sturlu kom fram að Davíð Oddsson hefði lýst því yfir fyrirfram að peningarnir myndu tapast, áður en hann hringdi í Geir til að fá velvilja hjá forsætisráðherra fyrir 500 milljóna evra neyðarláninu sem var jafnvirði tæplega 80 milljarða króna þegar lánið var veitt. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var samtal þeirra Geirs og Davíðs miklu lengra en sá hluti þess sem var til umfjöllunar í Kastljósi. 

Endurrit símtals þeirra hefur aldrei verið birt en Geir vissi ekki að símtalið hefði verið hljóðritað og hefur hann lagst gegn birtingu á endurriti símtalsins.

Seðlabankinn tók veð í danska bankanum FIH fyrir láninu en stór hluti verðmætanna í þeirri eign glataðist þegar danski bankinn var seldur. Fjárfestar með Christian Peter Dyrvig í fararbroddi högnuðust ævintýralega á sölu FIH bankans og hefur sú saga verið rakin í dönskum fjölmiðlum. Þess skal getið að Seðlabankinn aflaði sér upplýsinga frá danska fjármálaeftirlitinu um gæði FIH bankans og var það mat þess að FIH væri traustur banki. Þannig taldi seðlabankastjóri að veðandlagið myndi alltaf dekka huganlegt tap Seðlabankans vegna 500 milljóna evra lánveitingarinnar til Kaupþings. 

Seðlabanki Íslands hefur legið undir gagnrýni fyrir að halda illa á veðandlaginu eftir að Davíð hvarf á brott úr bankanum en talið er að tap Seðlabankans vegna sölunnar á FIH nemi að minnsta kosti jafnvirði 25 milljarða króna.

Velta má fyrir sér hvort neyðarlán Seðlabanka Íslands til Kaupþings banka 6. október 2008 gæti fallið undir umboðssvik í skilningi 249. gr. hegningarlaga eins og það ákvæði hefur verið túlkað í dómaframkvæmd Hæstaréttar. Átti sér stað misnotkun aðstöðu þegar lánið var veitt í skyndingu með einu símtali sem olli fjártjónshættu fyrir Seðlabanka Íslands? Hafa nýjar upplýsingar um að Davíð Oddsson þáverandi seðlabankastjóri hafi talið peningana glataða þýðingu fyrir mat á slíku?

Ólafur Þór Hauksson tók við embætti sérstaks saksóknara við stofnun embættisins. Sjá má viðtal við Ólaf Þór í myndskeiði með frétt.

Björn L. Bergsson settur ríkissaksóknari rannsakaði ætlaða vanrækslu seðlabankastjóranna og forstjóra Fjármálaeftirlitsins eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út í apríl 2010 en taldi að þeir hefðu ekki brotið lög og felldi niður mál á hendur þeim. 

Björn gaf út yfirlýsingu þegar ákvörðun hans lá fyrir þar sem segir: „Niðurstaða setts ríkissaksóknara er að umfjöllunarefni og ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis í köflum 21.5.5. og 21.5.6. gefi að svo stöddu ekki sérstakt tilefni til að efna til sakamálarannsókna á hendur Davíð Oddssyni, Eiríki Guðnasyni, Ingimundi Friðrikssyni og Jónasi Fr. Jónssyni.“ 


Tengdar fréttir

Trúnaðarbrot Sturlu í Seðlabankanum var fyrnt

Greindi eiginkonu sinni, lögfræðingi hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, frá því að Seðlabankinn myndi aðeins bjarga einum banka og Sigurjón Þ. Árnason væri búinn að kasta inn handklæðinu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×