Viðskipti innlent

Ný stórvirkjun byggð inni í fjalli við Búrfell

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sautján milljarða króna framkvæmdir við nýja Búrfellsvirkjun, við hlið þeirrar gömlu, eru komnar á fulla ferð og starfa nú 140 manns á svæðinu. Sprenging stöðvarhúshvelfingar er komin vel á veg en virkjunin verður að mestu neðanjarðar og mannvirkin því lítt sýnileg. 

Framkvæmdir við Búrfell 2, eitthundrað megavatta stórvirkjun, fóru á fullt í vor. Þar eru nú komnar stórar vinnubúðir og vinnuvélar á þeytingi fram og til baka.

Vinnubúðir fyrir um 200 manns hafa verið reistar við Búrfell.Stöð 2/Björn Sigurðsson.
„Nú eru framkvæmdir komnar á fullan kraft og munu verða í hámarki á næsta ári,“ segir Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs  Landsvirkjunar, í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. 

Búrfell er þegar orðið eitt stærsta framkvæmdasvæði landsins en samsteypa Íslenskra aðalverktaka, ÍAV, og Marti Contractors er stærsti verktakinn. Um 140 manns vinna núna á svæðinu en fjöldinn fer uppundir 200 manns á því næsta, að sögn Gunnars. 

Aldargömul teikning Titan-félags Einars Benediktssonar gerði ráð fyrir miklu stöðvarhúsi með 20 aflvélum við Sámsstaðaklif, milli Búrfells og Sámsstaðamúla. Nú verður virkjað á sama stað, en neðanjarðar og með einni vél.

Fyrsta tillaga að Búrfellsvirkjun, sem norski verkfræðingurinn Sætersmoen gerði fyrir Titan, félag Einars Benediktssonar. Nýja virkjunin er á sama stað en neðanjarðar í Sámsstaðaklifi, milli Samsstaðamúla og Búrfells.
Fara þarf inn í fjallið um 280 metra löng en þar er nú verið að sprengja fyrir stöðvarhússhvelfingu. Í fréttum Stöðvar 2 voru birtar skýringarmyndir Landsvirkjunar, sem sýna hvernig virkjunin mun líta út inni í fjallinu en þangað verður vatnið leitt um 132 metra há fallgöng.

Helstu mannvirki á yfirborði verða 370 metra aðrennsliskurður frá Bjarnalóni og tveggja kílómetra frárennslisskurður að Fossá.

Stöðvarhússhvelfingin er 280 metra inni í fjallinu.Stöð 2/Björn Sigurðsson.
„Það er tiltölulega mikil sátt um þessa framkvæmd enda er þetta stækkun á núverandi virkjun. Við erum ekki að fara inn á nýtt svæði. Við erum að nýta auðlindina betur sem er hérna til staðar. Við erum að nýta okkur núverandi lón, Bjarnalón, sem þjónustar núverandi virkjun. Þannig að umhverfisáhrif þessarar stækkunar eru tiltölulega lítil,“ segir Gunnar Guðni.

Þessi samsetta mynd sýnir núverandi virkjun til vinstri og hvernig væntanlegur frárennslisskurður, hægra megin, mun liggja frá nýja stöðvarhúsinu. Bjarnalón sést fyrir ofan.Grafísk mynd/Landsvirkjun.
Vatnsrennsli á Þjófafossi og Tröllkonuhlaupi mun þó enn minnka enda fellst helsti ávinningurinn með þessu sautján milljarða króna verkefni að nýta rennsli Þjórsár betur, - vatn sem núna rennur framhjá núverandi virkjun. 

„Við erum líka að ná okkur í meira afl inn í kerfið, orku. En síðast en ekki síst erum við líka að létta álagi af núverandi stöð og munum reka hana á minna álagi eftir þetta.“

Svona munu inntaksskurðirnir frá Bjarnalóni líta út, núverandi skurður til hægri en sá sem mun þjóna nýju virkjuninni sést neðst. Sámsstaðamúli sést efst.Grafísk mynd/Landsvirkjun.
Orkan er ekki eyrnarmerkt neinum einum kaupanda en virkjunin á að taka til starfa vorið 2018. 

„Þessi orka fer bara inn á kerfið til að fullnægja þeim samningum sem Landsvirkjun hefur gert,“ segir framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Landsvirkjunar.

Jarðgöngin sem liggja að stöðvarhússhvelfingunni eru 280 metra löng.Stöð 2/Björn Sigurðsson.

Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.