Handbolti

Valdabarátta í danska landsliðinu: Spurði hvort ætti að reka Guðmund daginn eftir úrslitaleikinn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ulrik Wilbek var áður sjálfur með danska landsliðið. Hann er hér til vinstri.
Ulrik Wilbek var áður sjálfur með danska landsliðið. Hann er hér til vinstri. vísir/getty
Mikið hefur verið fjallað um samskipti Guðmundar Guðmundssonar og Ulrik Wilbæk, íþróttastjóra danska handknattleikssambandsins í dönskum fjölmiðlum. Þar í landi er sagt að Wilbek hafi viljað reka Guðmund á miðjum Ólympíuleikunum í Ríó en Danir stóðu að lokum uppi sem sigurvegarar mótsins.

TV2 greindi frá þessi á vef sínum í gær og í dag fjallar Berlingske Tidende, BT, um málið í blaði sínu og á vef.

Þar segir að Wilbek hafi kallað lykilmenn danska landsliðsins á fund á miðjum Ólympíuleikunum og viðrað þá hugmynd að reka Guðmund á miðju móti. Leikmennirnir hafi slegið þá hugmynd út af borðinu og vildu þeir halda í þjálfarann.

Vildi reka Íslendinginn

Á forsíðu BT í dag má sjá bæði Guðmund og Wilbek og er fyrirsögnin á blaðinu; „Reiðubúinn að reka á miðjum Ólympíuleikunum.“ Yfirfyrirsögnin er síðan: „Óvæginn Wilbek í valdabaráttu við Guðmund.“

Í grein BT kemur fram að Wilbek hafi fundað með Mikkel Hansen, Jesper Nøddesbo, Henrik Møllegaard, René Toft Hansen, Niklas Landin og Lasse Svan en þetta eru algjörir lykilmenn í danska landsliðinu og svo gott sem allt byrjunarliðið.

Í blaðinu kemur fram að leikmennirnir hafi ekki viljað fara á bakvið þjálfarann sinn og viljað halda Guðmundi áfram. Þar segir samt sem áður að þeir hafi verið orðnir þreyttir á löngum og ströngum fundum fyrir leiki, sérstaklega þegar liðið mætti liðum sem það átti að vinna, og það nokkuð auðveldlega.

Var enn á því að reka Guðmund eftir úrslitaleikinn

Blaðamaður BT segir ennfremur að daginn eftir að Danir hafi tryggt sér Ólympíugullið hafi Wilbek kallað Niklas Landin, markvörð Dana, á fund og spurt hann hvort það ætti að reka Íslendinginn. Landin hafi þá svarað honum harkalega og sagt honum að liðið hafi verið að tryggja sér gull á Ólympíuleikunum og því væri erfitt að meta stöðuna á þeim tímapunkti.

Landin hafi samt sem áður kallað liðið saman á fund þar sem leikmenn fengu að segja sína skoðun. Þar hafi verið ákveðið að standa þétt við bakið á Guðmundi. Þessi saga heldur eflaust áfram og erfitt er að sjá hvernig þessir tveir menn geti haldið áfram að starfa saman. Eitthvað verður undan að láta og spurning hvort Guðmundur haldi áfram sem landsliðsþjálfari. Þetta eru í það minnsta ekki ákjósanlegar vinnuaðstæður.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.