Skoðun

Samstarf Garðabæjar og Klasa við uppbyggingu miðbæjar

María Grétarsdóttir skrifar
Þann 9. maí 2005 gerði Ásdís Halla Bragadóttir fyrir hönd Garðabæjar samning við Klasa hf., þá í eigu Íslandsbanka og Sjóvár, vegna uppbyggingar á miðbæ Garðabæjar. Í viðaukasamningi Garðabæjar og Klasa frá því í desember 2005 kemur fram breytt eignarhald á Klasa sem Gunnar Einarsson fyrir hönd Garðabæjar samþykkir og er félagið þá í eigu Íslandsbanka ( 20%), Sjóvár (40%) og Rapps (40%) en Rapp var í eigu Þorgils Óttars Mathiesen.

Þann 15. desember 2006 er gert samkomulag um úthlutun lóða og sölu byggingarréttar í miðbæ Garðabæjar. Í þeim samningi er gert ráð fyrir að heildarbyggingarmagn á svæðunum þremur verði allt að 31.631 fermetri auk bílakjallara. Íbúðarhúsnæði verði 21.187 fm brúttó/(18.009 nettó) og verslunar- og þjónustuhúsnæði 10.444 fm auk aðstöðu fyrir bensínstöð. Klasi greiði kostnað við framkvæmdir innan úthlutaðra lóða, þ.e. gerð gangstétta, torga, gatna og opinna svæða í samræmi við deiliskipulag.

Lagt var mat á virði eigna Garðabæjar við yfirtöku Klasa á miðbæjar­reitnum og var það eftirfarandi (m.v. 15.12.2006):

Sveinatungureitur, 158.370.000 (núverandi Hagkaupsreitur)

Garðatorg, 911.960.000

Kirkjulundur, 143.437.500

Samtals 1.213.767.500 krónur

Greiðsla fyrir þessar eignir yrði í formi uppkaupa Klasa á eignum í eigu þriðja aðila;

A. Uppkaupum á eignarhlutum Kirkjuhvols í Garðatorgi 1 og 3

B. Uppkaupum á eignarhluta SPH í Garðatorgi 1

C. Uppkaupum á eignarhluta Poseidon í Garðatorgi 1

D. Uppkaupum á eignarhluta S fasteigna ehf. í bensínstöð við Bæjarbraut

Engar beinar greiðslur komu í bæjarsjóð fyrir lóðir sem voru metnar á rúmlega 1,2 milljarða í árslok 2006. Nýjasti viðbótarsamningurinn um miðbæ Garðabæjar er kallað samkomulag og er frá 24. maí 2013 en þá hefur nýtt félag tekið við eignarhaldi samningsins við Klasa, Garðabær miðbær hf., sem er í eigu Finns Reyrs Stefánssonar, Ingva Jónassonar, Tómasar Kristjánssonar og RA5 ehf.

Garðabær hefur ekki fengið neinar greiðslur í gegnum samninga sína við Klasa en hefur hins vegar afhent Klasa nokkrar lóðir í Rjúpnahæð og Lyngprýði til viðbótar við framangreind svæði í miðbæ Garðabæjar (Sveinatungureitur, Garðatorg og Kirkjulundur) sem uppbót á minnkun byggingarmagns á miðbæjarreit sem þó var að ósk Klasa.

Garðabær hefur einnig greitt á annan milljarð króna til Klasa í gegnum þessa samninga í formi bílastæðakjallara, leigugreiðslna, eftirgjöf vaxtatekna og frágangs á yfirborði á miðbæjarsvæði auk þess sem Garðabær rekur þessi svæði. Nú eru að hefjast framkvæmdir við nýjustu byggingu Klasa á miðbæjarsvæðinu og mun Garðabær leggja fjármagn til verkefnisins með fjármögnun á flutningi á innkeyrslu inn á torgið. Vandséð er hvernig valdhafar geta réttlætt þessa afhendingu á skattfé íbúa og eigna til verktaka án endurgjalds.




Skoðun

Sjá meira


×