Viðskipti innlent

Tekjur Íslendinga: Guðni Th. getur reiknað með ríflegri launahækkun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðni Th. og Ólafur Ragnar á góðri stund í Nice í Frakklandi.
Guðni Th. og Ólafur Ragnar á góðri stund í Nice í Frakklandi. Vísir/Vilhelm
Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og verðandi forseti, mun hækka verulega í launum þegar hann tekur við embætti forseta. Í tekjublaði Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag,  kemur fram að laun Guðna á árinu 2015 hafi numið 657 þúsund á mánuði.

Samkvæmt nýlegum úrskurði kjararáðs eru laun forseta tæpar 2,5 milljónir á mánuði. Samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar eru tekjur Ólafs Ragnars Grímssonar, núverandi forseta rétt tæpar 2,3 milljónir á mánuði.

Lögbundin fríðindi embættisins eru ókeypis bústaður, ljós og rafmagn. Einnig ber að geta að allur útlagður kostnaður sem fylgir rekstri embættisins er greiddur úr ríkissjóði, til að mynda opinberar heimsóknir forseta og viðhafnarveislur á vegum embættisins. Forseti hefur einnig bíl og bílstjóra til afnota.

Frjáls verslun gefur í dag út sitt árlega tekjublað og er blaðið í sölu í 13 daga. Þar eru birtar tekjur um þrjú þúsund einstaklinga víðs vegar af landinu. Þekkts fólks í þjóðlífinu, menn í atvinnulífi, listum og stjórnmálum.

Listi Frjálsrar verslunar er byggður á útsvarsskyldum tekjum á árinu 2015 og þurfa þær því ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Í einhverjum tilvikum kann skattstjóri að hafa áætlað tekjur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×