Fótbolti

Dortmund búið að selja Mkhitaryan til Man. Utd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Henrikh Mkhitaryan spilar í ensku úrvalsdeildinni næsta vetur.
Henrikh Mkhitaryan spilar í ensku úrvalsdeildinni næsta vetur. vísir/epa
Þýska liðið Borussia Dortmund greinir frá því á heimasíðu sinni að það er búið að selja armenska miðjumanninn Henrikh Mkhitaryan til Manchester United.

Samningaviðræður Manchester United og Dortmund hafa staðið yfir í nokkrar vikur en fyrsta tilboð enska liðsins þótti of lágt. Það hefur nú hækkað tilboð sitt verulega þó ekki sé talað um neinar upphæðir.

Í yfirlýsingu Dortmund segir að tilboð Manchester United sé svo gott að ekki hafi verið hægt að hafna því þar sem leikmaðurinn á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við þýska liðið.

Mkhitaryan var keyptur til Dortmund af Jürgen Klopp árið 2013 frá Shakhtar Donetsk í Úkraínu. Hann hefur síðan þá verið lykilmaður í liði Dortmund og einn af betri fótboltamönnum álfunnar.

Þessi 27 ára gamli Armeni skoraði 40 mörk í 136 leikjum í öllum keppnum fyrir Dortmund á þremur tímabilum. Hann var stoðsendingakóngur Bundesligunnar á síðustu leiktíð og einnig leikmaður ársins að mati leikmanna.

Mkhitaryan er þriðji leikmaðurinn sem José Mourinho fær til sín í sumar en áður voru mættir miðvörðurinn Eric Bailly frá Villareal og sjálfur Zlatan Ibrahimovic frá Paris Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×