Viðskipti innlent

Svona er slóðinn sem heitir Dettifossvegur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Íbúar við Öxarfjörð hafa brugðist hart við áformum stjórnvalda að fresta lagningu nýs Dettifossvegar. Vegurinn er sagður lykilþáttur til að verjast fólksfækkun með uppbyggingu ferðaþjónustu. Í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan, var sýndur niðurgrafni moldarslóðinn, sem kallast Dettifossvegur, og rætt við Ævar Ísak Sigurgeirsson, kaupmann í Ásbyrgi. 



Illfær vegur, aðeins fyrir fjórhjóladrifsjeppa, stendur við Dettifossveg, veginn sem átti að fá ferðamennina til að aka frá hringveginum og heimsækja staði eins og Ásbyrgi, Kópasker og Raufarhöfn. Frá þjóðveginum í Kelduhverfi er hins vegar aðeins búið að leggja slitlag á þrjá kílómetra í átt að Hljóðaklettum og verið að vinna í fjórum kílómetrum til viðbótar en þar með eru peningarnir búnir.

Dettifossvegur er mjór, niðurgrafinn moldarslóði á yfir 20 kílómetra kafla á leiðinni milli Ásbyrgis, Hljóðakletta og Dettifoss.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Það eru komin sjö ár frá því framkvæmdir hófust við Dettifossveg vestan Jökulsárgljúfra en miðað við samgönguáætlun, sem innanríkisráðherra lagði fyrir Alþingi í vetur, mun þeim ekki ljúka á næstu þremur árum. Það ríkir því alger óvissa um það hve lengi menn þurfa að búa við niðurgrafinn moldarveg á þessari leið. Kaupmaðurinn í Ásbyrgi segist hissa. 



„Ég er nú eiginlega kjaftstopp. Ég hélt að það yrði haldið áfram og trúi því enn að það verði haldið áfram. En ég sé það ekki í áætlun næstu ára,“ segir Ævar Ísak Sigurgeirsson. 



Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig vegurinn lítur út, yfir tuttugu kílómetra langur, sem ferðamönnum er ætlað að aka næstu árin frá Dettifossi, um Hljóðakletta og í Ásbyrgi. 



„Þetta er ekki góð landkynning, allavega,“ segir Ævar Ísak.



Og vegurinn svo mjór að ökumenn geta varla mæst. 



-Er hægt að kalla þetta veg? 



„Nei. Hann er ónýtur. Það er bara svoleiðis,“ segir verslunareigandinn.

Ævar Ísak Sigurgeirsson, kaupmaður í versluninni Ásbyrgi.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Hann segir ferðamennina því freistast til að aka veginn um Hólssand, austan Dettifoss. 



„Þar er hættulegur vegur. Þar eru bílveltur, í júlí í fyrra að minnsta kosti 20 sem voru tilkynntar, bílveltur og útafakstur, - fyrir utan það sem ekki var tilkynnt. Við erum að tala um stórhættulegan veg þar.“ 



Vegna fólksfækkunar hefur Byggðastofnun sett Öxarfjörð og Raufarhöfn undir verkefnið Brothættar byggðir. Verkefnisstjórn þess telur niðurskurð Dettifossvegar mikið bakslag í þeirri viðleitni að efla ferðaþjónustu. Hér má sjá ályktun verkefnisstjórnar.



„Nú eru bara margir að gefast upp. Fólk er að flytja og það fækkar líka í sveitunum. Það verður bara orðið erfiðara að manna þetta með þessu áframhaldi, fyrst það er ekkert hérna við að vera lengur.



Ég veit svo sem ekki hvernig þetta endar en næstu ár verða erfið,“ segir Ævar Ísak Sigurgeirsson.

Hér lýkur endurbótum Dettifossvegar, sjö kílómetrum frá þjóðveginum í Kelduhverfi. Síðan tekur við niðurgrafinn moldarslóði sem er of mjór til að stórir bílar gæti mæst.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Tengdar fréttir

Hálfur Dettifossvegur verri en enginn

Ferðaþjónustuaðilar á norðausturhorni landsins óttast hrun, þegar bara hálfur Dettifossvegur verður opnaður meðfram Jökulsárgljúfrum næsta sumar, og segja að ferðamennirnir muni sleppa Ásbyrgi og byggðunum við norðurströndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
MAREL
0,6
29
368.636
VIS
0,47
15
98.579
FESTI
0,35
5
29.568
HAGA
0
4
38.270
ARION
0
4
34.254

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
EIM
-4,89
29
262.067
ICEAIR
-2,63
32
25.702
ORIGO
-2,05
10
46.407
SKEL
-1,65
6
26.119
LEQ
-1,04
1
2.719
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.