Innlent

Taka vel í breytingar á kjararáði

Ingvar Haraldsson skrifar
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ
Aðilum vinnumarkaðarins hugnast vel að fækka þeim sem fá laun ákveðin af kjararáði. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp þess efnis á Alþingi að því er fram kom í fréttum RÚV.

Kjararáð hækkaði laun þeirra sem heyra undir ráðið um 7,15 prósent í síðasta mánuði. Laun ráðuneytisstjóra hækka um tæplega þriðjung eftir að skrifstofustjórar stjórnarráðsins og ráðuneytisstjórar fengu sérstaka launahækkun hjá kjararáði.

„Við höfum lengi haldið því fram að það væri fullkominn óþarfi að hafa allan þennan fjölda sem heyrir undir kjararáð. Erlendis, eins og í Svíþjóð til dæmis, þar semja héraðsdómarar og dómarar bara við sína viðsemjendur,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Gylfi segist ekki hafa séð umrætt frumvarp en hann fagni því að gera eigi breytingar á kjararáði. Hann ítrekar, það sem fram kom í Fréttablaðinu um helgina, að hann vilji að Alþingi komi saman til að afturkalla nýlegar launahækkanir kjararáðs.

Undir kjararáð heyra meðal annars þjóðkjörnir fulltrúar, dómarar, forstöðumenn ríkisstofnana, framkvæmdastjórar hlutafélaga sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins, saksóknarar, prestar, sýslumenn og sendiherrar.

„Að hafa svona stóra hópa sem fá alltaf einhverja réttmæta leiðréttingafasa, gjarnan með einhverja tilvísun langt aftur í tímann virðist vera, er algjört stílbrot að okkar mati,“ segir Gylfi.

Undir þetta tekur Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sem telur eðlilegra að embættismennirnir hefðu rétt til að semja sjálfir. „Ég held að það sé langeðlilegast og á að vera meginreglan. Það er í algjörum undantekningum sem gripið er til annarra ráðstafana sem þessara og þar hefur, hvað kjararáð varðar, verið horft til þjóðkjörinna fulltrúa og einhverra lykilstarfsmanna stjórnarráðsins,“ segir Þorsteinn.

Með því að fækka þeim sem heyri undir kjararáð megi auka jafnræði á milli hópa. „Það að það komi eitthvert svona ráð fimm manna sem fjalli um réttmætar launabreytingar. Það er ekki það sem fólk fær almennt, segir Gylfi. „Það þarf bara að hafa fyrir því að berjast fyrir sínum réttindum. Þar fær nú ekkert endilega réttlætið ráðið.“

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×