Skoðun
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB

Hagsmunum ógnað?

Elín Björg Jónsdóttir skrifar

Alþingi var kallað saman fyrir helgi til að setja lög á kjaradeilu Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Isavia. Það er auðvitað óþolandi að stjórnvöld gangi með þessum hætti þvert gegn rétti launafólks til að semja beint við sína viðsemjendur um kaup og kjör.

BSRB hefur mótmælt þessum vinnubrögðum harðlega. Bandalagið telur að heppilegra hefði verið að gefa deiluaðilum svigrúm til að ná samningum án hótana eða tímamarka. Verkfallsrétturinn er varinn af stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu en stjórnvöld telja að yfirvinnubann flugumferðarstjóra hafi ógnað almannahagsmunum, sem vegi þyngra. Það er einkennilegt ef ástandið er orðið þannig að vinni flugumferðarstjórar ekki yfirvinnu sé almannahagsmunum stefnt í voða.

Það er auðvitað grafalvarlegt, telji stjórnvöld að það sé staðan. Þá hlýtur næsta skrefið í þeirra viðleitni til að tryggja almannahagsmuni að vera að komast að því hverjir bera ábyrgð á því að ástandið er orðið svona og bæta úr því hið snarasta.

Það ætti kannski ekki að koma á óvart að stjórnvöld grípi til þess óyndisráðs að setja lög á þessa kjaradeilu, þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar um víðtæka sátt á vinnumarkaði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Á kjörtímabilinu hafa verið sett lög á skipverja um borð í Herjólfi, flugmenn, BHM og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Og nú er röðin komin að flugumferðarstjórum.

Harðnandi kjaradeilur og fjöldi lagasetninga á undanförnum árum sýna að það er full ástæða til að endurskoða kerfið frá grunni. SALEK-hópurinn hefur meðal annars unnið að breytingu á kjarasamningslíkaninu með það að markmiði að færa það nær því besta sem þekkist á hinum Norðurlöndunum.

Enginn veit enn hvað kemur út úr þeirri vinnu. Við vitum ekki hvort niðurstaðan verður ásættanleg fyrir félagsmenn aðildarfélaga BSRB, önnur samtök launafólks eða viðsemjendur okkar. En við hljótum öll að sjá að núverandi ástand er ekki ásættanlegt. Við verðum að leggja okkur fram við að koma með nýja sýn og nýja aðferðafræði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.