Lífið

Tæknidagur Háskólans í Reykjavík fer fram í dag

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Guðrún Sævarsdóttir, deildarforseti tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík.
Guðrún Sævarsdóttir, deildarforseti tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík. vísir/Stefán
„Tæknidagurinn er uppskeruhátíð nemenda í tækni og verkfræðideild Háskólanum í Reykjavík. Stærsta verkefnið sem við komum til með að kynna er keppnisbíll fyrir Formula student sem nemendur stefna á að koma á Silverstone-kappakstursbrautina í Bretlandi í sumar,“ segir Guðrún Sævarsdóttir, deildarforseti tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík. 

Tæknidagur Háskólans í Reykjavík fer fram í dag milli klukkan 13.00 og 17.00.

„Aðalástæðan fyrir því að við erum með verkefni af þessu tagi í gangi er að nemendur öðlist reynslu því það að vera góður verkfræðingur eða tæknifræðingur er ekki einungis spurning um að vera flinkur að reikna dæmi heldur er mikilvægt að geta unnið með skorðurnar sem þú færð og gert eitthvað sem virkar,“ segir Guðrún.

Meðal verkefna sem nemendur unnu að þetta árið er lítil vatnsaflsvirkjun með túrbínu, virkjun sjávaröldu, könnun á rafgæðum á Akranesi, búnaður til að fylgjast með rennsli í ám og lækjum sem sendir gögn með GSM, þraut í undankomuherbergi og ljósastýring með 3D-skynjun á staðsetningu handar.

„Veittar verða viðurkenningar Tæknifræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi lokaverkefni í tæknifræði. Þau verkefni sem hljóta viðurkenningu í ár eru steypt útveggjaklæðning með basaltbendingu, veðurkápa á forsteyptum útveggjaeiningum með basalttrefjabendingu, búnaður til rafmagnsframleiðslu í bauju og virkjun svínagass á Vatnsleysuströnd,“ segir Guðrún og bætir við að allir séu velkomnir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.