Viðskipti innlent

Áhyggjur af lánum til ferðaþjónustunnar

Ingvar Haraldsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Sigríður Benediktsdóttir , framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Sigríður Benediktsdóttir , framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands. fréttablaðið/stefán
„Þetta er þáttur sem við höfum ákveðnar áhyggjur af,“ segir Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, um áhrif sem breytingar á gengi krónunnar gætu haft á útlánahættu bankanna vegna lána til ferðaþjónustunnar.

Ferðaþjónustan er orðin sú atvinnugrein sem bankarnir hafa lánað næstmest til. Aðeins hefur verið lánað meira til sjávarútvegsins. Virði útlána til ferðaþjónustunnar nam um 127 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi síðasta árs, eða um 10 prósentum af heildarútlánum bankakerfisins. Til samanburðar nema útlán til verslunar 9 prósentum af heildarútlánum og útlán til sjávarútvegs 22 prósentum.



Sigríður segir að sveiflur í gengi krónunnar, sérstaklega styrking á genginu, geti haft áhrif á afkomu ferðaþjónustunnar. Í riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika, sem kom út í gær, er bent á að aukin óvissa sé um þróun á gengi krónunnar í kjölfar afnáms fjármagns­hafta sem þar með auki útlánaáhættu bankanna.

Sigríður segir að álagspróf sem verið sé að leggja á bankana og verði kynnt í haustskýrslu Fjármála­stöðug­leika muni koma nokkuð inn á þessa þætti. Þá segir segir hún erfitt að fá góða yfirsýn yfir hvernig lán bankanna til ferðaþjónustufyrirtækja hafa þróast þar sem lán flokkist innan margra atvinnugreina.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur áður sagt að hætta sé á offjárfestingum í hótelbyggingum. „Yfirleitt fara svona fjárfestingarbylgjur fram úr sér að lokum og það er bara spurning hvað það verður mikið,“ sagði Már í nóvember.

Samkvæmt úttekt Markaðarins frá því í janúar eru áform um að byggja allt að 3.700 hótelherbergi hér á landi sem kostað geta allt að 80 milljarða króna í byggingu.

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 21. apríl.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×