Formúla 1

Button notar sína aðra vél í Kína

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Jenson Button eftir að hafa þurft að hætta keppni í Bahrein.
Jenson Button eftir að hafa þurft að hætta keppni í Bahrein. Vísir/Getty
Jenson Button ökumaður Mclaren-Honda liðsins mun nota vél númer tvö í Formúlu 1 kappakstrinum í Kína um helgina. Honda vélin í Mclaren bílnum bilaði í Bahrein.

„Bahrein keppnin var súrsæt að mínu mati. Á föstudagsæfingum gekk allt vel en við gátum því miður ekki skilað því í tímatökunni og svo bilaði rafallinn í keppninni. Fram að þeim tímapunkti sem við töpuðum afli var bíllinn mjög góður og ég er vongóður um að við getum haldið fluginu sem við erum á í Sjanghæ og náð sem mestu út úr pakkanum sem vð höfum,“ sagði Button.

„Við verðum þó að halda áfram að hugsa um áreiðanleikan. Við erum að ná framförum þar en allt undir 100 prósent er ekki nóg, og það er mikilvægt að við náum í stigin sem við eigum skilið og að við höfum eitthvað til að sýna allan þann árangur sem við höfum náð,“ hélt Button áfram.

Yusuke Hasegawa, yfirmaður Formúlu 1 deildar Honda, staðfesti að Button þurfi að nota sína aðra vél í Sjanghæ. Vél númer tvö er því um borð í báðum McLaren-Honda bílunum. Hinn bíllinn sem Stoffel Vandoorne og Fernando Alonso hafa deilt þurfti nýja vél eftir áreksturinn í Ástralíu.

Hasegawa lofaði að vandamálið sem kom upp hjá Button í Bahrein muni ekki endurtaka sig.


Tengdar fréttir

Formúla 1 hverfur aftur til fortíðar, til framtíðar

Formúla 1 mun snúa aftur til baka í gamla tímatökufyrirkomulagið. Þessi lending liðsstjóranna í málinu á að standa til framtíðar. Breytingin tekur strax gildi í kínverksa kappakstrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×