Viðskipti innlent

Íslandsbanki hefur ekki heimild til að rífa höfuðstöðvarnar

Heimir Már Pétursson skrifar
Íslandsbanki hefur ekki leyfi til að rífa núverandi höfuðstöðvar sínar við Kirkjusand og formaður skipulagsráðs segir að þar verði heldur ekki veitt heimild til að byggja hótel. Deiliskipulag fyrir strætóreitinn við hlið Íslandsbanka verður tekið fyrir á morgun.

Hjálmar Sveinsson, formaður skipulagsráðs.
Í fréttum Stöðvar tvö á laugardag var greint frá því að Íslandsbanki ætli að flytja höfuðstöðvar sínar frá Kirkjusandi í Norðurturninn í Kópavogi, bæði vegna myglu í höfuðstöðvunum og hagræðingar af sameiningu allrar starfsemi höfuðstöðva á einum stað. Bankinn hefur tekið þátt í skipulagsvinnu með borginni á gömlu strætólóðinni við hlið bankans.  

Hjálmar Sveinsson, formaður skipulagsráðs, segir að þau áform muni ekki raskast við flutning höfuðstöðvanna. Enda liggi löng skipulagsvinna þar að baki og niðurstaða komin í deiliskipulag.

„Það var kynnt fyrir skipulagsráði í síðustu viku og það verður síðan tekið til afgreiðslu á morgun,“ segir Hjálmar. „Aðalatriðið er það að þar sem Íslandsbanki er gerir skipulagið ráð fyrir að verði atvinnulóð.“

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir jafnvel koma til greina að rífa núverandi höfuðstöðvar bankans á Kirkjusandi.Vísir
Á stætóreitnum þar sem borgin og Íslandsbanki deili lóðum sé gert ráð fyrir allt að 300 íbúðum þar sem Reykjavíkurborg hafi ráðstöfunarrétt yfir 150 íbúðum sem að hluta til verði leiguíbúðir. En auk þess er gert ráð fyrir verslunar- og skrifstofuhúsnæði á reitnum og að uppbygging gæti hafist á næsta ári. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir jafnvel koma til greina að rífa núverandi höfuðstöðvar á Kirkjusandi.

„Það er engin heimild fyrir því í þessu skipulagi. Þannig að það þarf að sækja sérstaklega um það,“ segir Hjálmar. „Mig langar að bæta því við af því að ég hef heyrt því fleygt að menn telji þá að hér muni þá kannski koma hótel, sem er nú kannski ekki mjög óvænt hugmynd, en skipulagið gerir ekki ráð fyrir því.“

Gert sé ráð fyrir hóteli á horni Sæbrautar og Kringlumýrabrautar en þau verði ekki fleiri á þessu svæði. Á Kirkjusandi verði atvinnustarfsemi hvort sem hún verði á vegum Íslandsbanka eða annarra aðila.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×