Skoðun

Skerðing vegna atvinnutekna aldraðra eykst!

Björgvin Guðmundsson skrifar
Fyrir alþingiskosningarnar 2013 skrifaði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins bréf til eldri borgara. Í bréfinu lofaði Bjarni að afnema allar tekjutengingar vegna aldraðra í kerfi almannatrygginga. Þetta var stórt loforð og hefði skipt miklu máli, ef það hefði verið efnt. Bjarni varð fjármálaráðherra og hefur því verið í góðri stöðu til þess að efna loforðið en það hefur ekki verið gert enn.

Lagðar hafa verið fram nýjar tillögur um breytingar á almannatryggingum. Eru tekjutengingar afnumdar þar? Nei. Þvert á móti eru skerðingar lífeyris aldraðra hjá TR auknar vegna atvinnutekna. En hvað með skerðingar vegna greiðslna úr lífeyrissjóði? Það er sáralítið dregið úr þeim. Til dæmis mun einhleypur eldri borgari, sem hefur 200 þúsund krónur á mánuði úr lífeyrissjóði sæta 90 þúsund króna skerðingu hjá TR á mánuði eftir skatt í nýja kerfinu en það er sama skerðing og er í dag. Ávinningur er enginn. Sá, sem hefur 300 þúsund á mánuði úr lífeyrissjóði, mun fá 135 þúsund króna skerðingu á mánuði eftir skatt (einhleypur) en í dag er skerðing hjá honum 140 þúsund kr. á mánuði eftir skatt.

Ávinningur er 5 þúsund á mánuði.

Skref stigið til baka

Hjá kvæntum eldri borgara lítur dæmið svona út: Eldri borgari í hjónabandi eða sambúð með 200 þúsund á mánuði úr lífeyrissjóði sætir 86 þúsund króna skerðingu á mánuði eftir skatt í dag en í nýja kerfinu verður skerðingin 90 þúsund á mánuði eftir skatt. Staðan versnar m.ö.o. um 4 þúsund á mánuði. Og hjá þeim, sem hefur 300 þúsund á mánuði úr lífeyrissjóði, er 124 þúsund króna skerðing hjá TR á mánuði eftir skatt en í nýja kerfinu verður skerðingin 135 þúsund krónur á mánuði eftir skatt. Skerðingin eykst m.ö.o. um 11 þúsund á mánuði. Við þessar upplýsingar er því að bæta að samkvæmt nýju tillögunum hefst skerðing grunnlífeyris á ný. En hún var afnumin vorið 2013 eftir harða baráttu Félags eldri borgara í Rvk og LEB. Þarna verður stigið skref til baka.

Dregið verður hins vegar úr skerðingum vegna fjármagnstekna. Skerðingin er óhemju mikil í dag, þar eð frítekjumark vegna fjármagnstekna er aðeins rúmar 8 þúsund krónur á mánuði. En nú verður skerðing 45%. Skerðing minnkar því nema á allra lægstu fjármagnstekjum. Hins vegar munu fjármagnstekjur áfram vega 100% en ekki 50% eins og núverandi stjórn lofaði í stjórnarsáttmálanum. Um áramótin 2008/2009 var ákveðið að fjármagnstekjur mundu vega 100% í stað 50% áður. Þetta lofaði núverandi stjórn að leiðrétta. Hún stendur ekki við það.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×