Erlent

Gengið í skrokk á Subway Jared í fangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Jared Fogle, eftir að hann var dæmdur til 15 ára fangelsisvistar.
Jared Fogle, eftir að hann var dæmdur til 15 ára fangelsisvistar. Vísir/AFP
Jared Fogle, fyrrverandi talsmaður Subway, var barinn af öðrum fanga í fangelsi. Hann situr inni eftir að hafa játað kynferðisbrot gegn börnum. Fjölskylda fangans sem réðst á Fogle segir hann fyrirlíta barnaníðinga. Hann hafi verið knúinn til að ganga í skrokk á honum.

Fogle situr inni í lágmarksöryggisfangelsi en hann var dæmdur til fimmtán ára fangelsisvistar. Steven Nigg, sem er sextíu ára gamall, er mótfallinn því að barnaníðingar hafi það svo gott að vera í slíku fangelsi.

Steven Nigg situr inni vegna brota á vopnalöggjöf Bandaríkjanna og á von á því að losna úr fangelsi árið 2024. Árásin á að hafa átt sér stað í janúar.

Fyrst var sagt frá árásinni á vef TMZ.

Samkvæmt Washington Post hafa fangelsismálayfirvöld ekki viljað staðfesta að árásin hafi átt sér stað, en ljóst sé að þeir Fogle og Nigg séu í sama fangelsi. Þá segir frændi Nigg að árásin hafi átt sér stað.

„Það sem hann vildi gera var að senda skilaboð og það gerði hann,“ segir Jimmy Nigg við AZCentral. „Ef hann hefði viljað drepa Jared Fogle hefði hann getað gert það. Enginn stöðvaði hann. Hann kom sínum skilaboðum á framfæri og gekk í burtu.“

Nigg var settur í tíu daga einangrun vegna árásarinar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×