Viðskipti innlent

Ofbýður framferði tryggingafélaganna

ingvar haraldsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir og Árni Snævarr vilja að gripið verði til aðgerða vegna arðgreiðslna tryggingarfélaganna.
Jóhanna Sigurðardóttir og Árni Snævarr vilja að gripið verði til aðgerða vegna arðgreiðslna tryggingarfélaganna. vísir
„Bankarnir og tryggingafélögin misbjóða algjörlega fólki og ættu að skammast sín,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra í færslu á Facebook í kjölfar umfjöllunar Fréttablaðsins um áform tryggingafélaganna um arðgreiðslur. Samkvæmt tillögum sem liggja fyrir aðalfundi tryggingarfélaganna er lagt til að allt að 13 milljarðar króna verði greiddir til eigenda þeirra, með arðgreiðslum og endurkaupum eigin hlutabréfa.

„Bankar blóðmjólka heimilin með okurvöxtum og þóknanagjöldum og greiða síðan himinháa bónusa og ofurkjör til stjórnenda af þessum ránsfeng og tugi milljarða í arð til hluthafa. Tryggingafélög fylgja nú í kjölfarið og greiða háar arðgreiðslur til hluthafa á sama tíma og þau krefjast hærri iðgjalda eins og af skyldutryggingu sem fólk hefur ekkert val um hvort það greiðir,” segir Jóhanna.

Sjá einnig: Bankarnir hagnast um 106,8 milljarða

Hún vill að Samkeppniseftirlitið grípi til aðgerða. „Gera þarf tafarlausa úttekt á samkeppnisháttum banka og tryggingafélaga og hvort einhverskonar dulbúið samráð sé á milli aðila í þessum greinum og skoða hvort hægt sé að setja hömlur á óþolandi okur þeirra á almenning.“

Herdís Dröfn Fjeldsted og aðrir stjórnarmenn í VÍS leggja til að fimm milljarðar verði greiddir í arð vegna reksturs síðasta árs. Félagið hagnaðist um tvo milljarða króna á árinu. Arðeiðslan kemur meðal annars til vegna nýrrar reikningsskilaraðferðar sem hækkar eigið fé félagsins en lækkar vátryggingarskuld.vísir/anton
Ætlar að segja upp viðskiptum við TM

Þá hefur Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum, sent bréf til TM þar sem hann segist ætla að hætta í viðskiptum við fyrirtækið verði tillaga að arðgreiðslu og endurkaupum hlutabréfa samþykkt á aðalfundi félagsins.

Árni hvetur aðra neytendur til að gera slíkt hið sama í færslu á Facebook.

Sjá einnig: Ný reikningsskil skapa milljarða í arð fyrir tryggingafélögin

„Ég óska hér með eftir upplýsingum um það hvað ég þarf að gera til að segja upp viðskiptum mínum við fyrirtækið, segir Árni í bréfinu til TM.

„Ástæðan fyrir því að ég undirbý að hætta viðskiptum við fyrirtækið eru fréttir um útgreiðslu arðs sem sem er algjörlega óréttlætanlegur. Það er ekkert nýtt að iðgöld á Íslandi séu há, enda er mörgum i fersku minni hvernig sjóðir Tryggingafélaga voru misnotaðir í aðdraganda hrunsins. Nú bætist við að gróði tryggingafélaga byggist á breytingum á lagaumhverfi vegna tilskipana ESB,” segir Árni.

Þá vitnar hann í orð Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðareigenda, sem sagði í Fréttablaðinu að miðað við framsetningu tryggingafélaganna á nýrri reikningsskilaaðferð hafi tjón verið ofáætlað. Því ætti upphæðin að renna til viðskiptavina tryggingafélaganna en ekki vera greidd út sem arður. „Í eðlilegu viðskiptaumhverfi myndi svona ekki ganga.“sagði Runólfur.

Árni segist ætla að bíða fram yfir aðalfundi tryggingarfélaganna. „Ef svo ólíklega vildi til að fyrirtækið/n sjái að sér en tel sjálfsagt að upplýsa ykkur um að aðgerðir eru í uppsiglingu til að knýja tryggingafyrirtæki til að koma til móts við viðskiptavini sína í stað þess að moka fé út úr fyrirtækjunum,“ segir Árni.

„Það er kominn tími til að íslenskir neytendur hætti að láta bjóða sér framkomu af þessu tagi. Það skal þó viðurkennt að framkoma ykkar er skárri en VÍS sem hækkaði iðgjöld vegna meintrar slæmrar afkomu, en greiddi síðan út milljarða í arðgreiðslur,“ bætir Árni við.

Þónokkrir virðast hafa svarað kallinu og segjast, á Facebook síðu, Árna ætla að senda sambærilegt bréf.

 
Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforingi á Akranesi, spyr út í þátt lífeyrissjóðanna í arðgreiðslum VÍS.
Vilhjálmur spyr út í þátt lífeyrissjóðanna

Þá segist Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforingi á Akranesi, á Facebook, hafa fengið sömu tilkynningu og aðrir viðskiptavinir VÍS í lok nóvember þar sem tilkynnt var að iðgjöld yrði hækkuð vegna slæmrar afkomu. Skömmu síðar hafi stjórn VÍS svo tilkynnt um að hún hafi ákveðið að þiggja 75% hækkun reglulegra launa sem samþykkt hafi verið á síðasta aðalfundi. Stjórnin bar því við að í staðinn hefði viðbótargreiðslum verið hætt og launin væru í samræmi við  sambærileg félögum á markaði.

„Núna hefur stjórnin bætt um betur og ákveðið að 5 milljarðar verði greiddir í arð fyrir árið 2015 og þetta er allt að gerast á sama tíma og iðgjöld á viðskiptavini eru hækkuð allverulega,“ segir hann og spyr út í þátt lífeyrissjóðanna, stærstu hluthafa í VÍS. „Getur verið að lífeyrissjóðirnir "okkar" séu að knýja á um alvöru arðgreiðslur en þeir eiga 36% í VÍS. Er ekki eitthvað bogið við þetta?“

Bréf Árna Snævars má lesa í heild sinni hér að neðan:

Kæra Tryggingamiðstöð.

Ég óska hér með eftir upplýsingum um það hvað ég þarf að gera til að segja upp viðskiptum mínum við fyrirtækið.

Ástæðan fyrir því að ég undirbý að hætta viðskiptum við fyrirtækið eru fréttir um útgreiðslu arðs sem sem er algjörlega óréttlætanlegur. Það er ekkert nýtt að iðgöld á Íslandi séu há, enda er mörgum i fersku minni hvernig sjóðir Tryggingafélaga voru misnotaðir í aðdraganda hrunsins. Nú bætist við að gróði tryggingafélaga byggist á breytingum á lagaumhverfi vegna tilskipana ESB. Í Fréttablaðinu segir: „Runólfur Ólafsson, hjá FÍB, segir að miðað við framsetningu tryggingafélaganna á hinni nýju reikningsskilaaðferð hafi tjón verið ofáætlað. Því ætti upphæðin að renna til viðskiptavina tryggingafélaganna en ekki vera greidd út sem arður. „Í eðlilegu viðskiptaumhverfi myndi svona ekki ganga.“

Að sjálfsögðu bíð ég fram yfir aðalfundi, ef svo ólíklega vildi til að fyrirtækið/n sjái að sér en tel sjálfsagt að upplýsa ykkur um að aðgerðir eru í uppsiglingu til að knýja tryggingafyrirtæki til að koma til móts við viðskiptavini sína í stað þess að moka fé út úr fyrirtækjunum. 

Það er kominn tími til að íslenskir neytendur hætti að láta bjóða sér framkomu af þessu tagi. Það skal þó viðurkennt að framkoma ykkar er skárri en VÍS sem hækkaði iðgjöld vegna meintrar slæmrar afkomu, en greiddi síðan út milljarða í arðgreiðslur,

b.kv. Árni Snævarr


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×