Viðskipti innlent

Stjórn VÍS vill greiða eigendum 5 milljarða í arð

ingvar haraldsson skrifar
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, telur vöxt fyrirtækisins ánægjulegan.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, telur vöxt fyrirtækisins ánægjulegan.
VÍS hagnaðist um 2,1 milljarð króna á síðasta ári miðað við 1,2 milljarða hagnað árið 2014.

Stjórn VÍS leggur til að 5 milljarðar verði greiddar í arð fyrir árið 2015.

Þá færði fyrirtækið niður nýtt hugbúnaðarkerfi að fullu, um 1.430 milljóna króna eftir að virðisprófun á kerfinu. Hugbúnaðarkerfið hafði ekki hafði skilað því rekstrarhagfræði sem vonast var til.  Innleiðingartími og kostnaður við kerfið hefur einnig reynst umtalsvert meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Án niðurfærslunnar hefði hagnaður VÍS numið 3,2 milljörðum króna.

Eigið fé VÍS nemur 17,5 milljörðum, skuldir 27,3 milljörðum og eignir 44,8 milljörðum.

Tekjur af fjárfestingastarfsemi námu 4,1 milljarði samanborið 2,4 milljarða árið 2014.

Þá nam samsett hlutfall, sem er skilgreint sem tjónakostnaður og rekstrarkostnaður sem hlutfall af iðgjöldum, 101,5 prósentum á síðasta ári. Hlutfallið batnaði því milli ára en það var 104,5 prósent árið 2014.

VÍS sendi í lok nóvember bréf á viðskiptavini sína þar sem tilkynnt var að iðgjöld yrðu hækkuð vegna slæmrar afkomu.

Forstjórinn ánægður með vöxt

„Ánægjulegt er að sjá að ágætur vöxtur var í innlendum iðgjöldum og hækkuðu bókfærð iðgjöld  um 5,8% á árinu.  Þrátt fyrir iðgjaldavöxt er vöxtur í tjónatíðni áhyggjuefni og það verður áfram áskorun að ná ásættanlegri afkomu af mörgum greinaflokkum vátrygginga.  Samsett hlutfall á árinu 2015 var 101,5% en markmið félagsins er að vera með samsett hlutfall undir 100%,” segir Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS.

„Góð afkoma á árinu skýrist öðru fremur af góðri ávöxtun fjárfestingaeigna. Fjárfestingastarfsemin gekk vel á árinu og er jákvæð afkoma af öllum eignaflokkum. Ávöxtun skuldabréfa var góð og eins skilaði innlenda hlutabréfasafn félagsins góðri afkomu. Ávöxtun erlendra eigna félagsins olli vonbrigðum á síðasta ári,“ bætir forstjórinn við. 

Ávöxtun fjáreigna nam 12,2% á árinu, en 7,1% árið 2014. Þá nam arðsemi eigin fjár nam 11,3%, en hefði numið 17,5% ef ekki hefði komið til niðurfærslu óefnislegra eigna.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×