Viðskipti innlent

Segir Glitni borga mun hærri stjórnarlaun en einn stærsti banki heims

ingvar haraldsson skrifar
Óttari þykir ekki við hæfi að stjórnarlaun í Glitni séu tíföld stjórnarlaun í skráðum íslenskum félögum.
Óttari þykir ekki við hæfi að stjórnarlaun í Glitni séu tíföld stjórnarlaun í skráðum íslenskum félögum. vísir
Laun stjórnarmanna í GlitniHoldCo eru fjórföld á við laun stjórnarmanna í Deutsche bank, einum stærsta banka heims, samkvæmt gögnum sem Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaganna hefur tekið saman. Óttar hefur boðið sig fram til stjórnar Glitnis HoldCo og samhliða því lagt til 90 prósent lækkun stjórnarlauna félagsins.

Stjórnarlaun í Glitni HoldCo nema 4,1 milljón krón á mánuði en í Deutsche bank 1,2 milljónum króna á mánuði samkvæmt samantekt Óttars. Þá nema laun stjórnarformanns Glitnis 6,2 milljónum króna á mánuði en stjórnarformanns Deutsche bank 2,4 milljónum króna á mánuði samkvæmt því sem Óttar hefur tekið saman.

Stjórnarlaun í Nordea bank, sem starfar í Svíþjóð, Danmörku, Finlandi og Noregi, eru milljón króna á mánuði og laun stjóranrformanns 3,3 milljónum króna á mánuði samkvæmt samantektinni. Þá nema stjórnarlaun í Den Danske Bank 788 þúsund krónum á mánuði og stjórnarformanns 866 þúsund krónum að sögn Óttars.

Stjórnarlaun í Íslandsbanka, sem var stærsta einstaka eign Glitnis þar til hann var afhentur ríkinu, nema 517 þúsund krónum á mánuði og laun stjórnarformanns 750 þúsund krónum á mánuði.

„Það hefur heyrst að laun fyrir stjórnarsetu í Glitni HoldCo þurfi að vera jafn há og raun ber vitni, til að standast samanburð við sambærileg erlend félög þannig að laða megi að nægilega hæft fólk til þessara verka. Til að kanna hvernig þessi fullyrðing stenst voru tekin saman laun fyrir að sinna stjórnarstörfum í stærstu bönkum Norðurlanda, stærsta banka Þýskalands og íslensku bankana sem hafa verið eða mestu í eigu þrotabúa,“ segir Óttar.

Óttar segir samantekt sýna að laun fyrir setu í stjórn Glitnis HoldCo séu fullkomlega úr öllu samhengi við til að mynda Deutsche bank, einn stærsta banka heims.

Glitnir HoldCo er hlutafélag sem heldur utan um þær eignir sem eftir stóðu í Glitni að lokinni slitameðferð félagsins. Hluthafar þess eru kröfuhafar sem ekki hafa fengið kröfur sínar greiddar að fullu.

Stjórnarmenn í félaginu eru Mike Wheeler, sem er formaður stjórnar, Tom Grøndal og Steen Parsholt.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×