Viðskipti innlent

Telja aðstæður svipaðar og á árinu 2007

Sæunn Gísladóttir skrifar
Þrjátíu og átta prósent stjórnenda í  flutningum og ferðaþjónustu segja skort ríkja á starfsfólki, samkvæmt könnunninni.
Þrjátíu og átta prósent stjórnenda í flutningum og ferðaþjónustu segja skort ríkja á starfsfólki, samkvæmt könnunninni. Vísir/GVA
Niðurstöður könnunar meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins einkennast af miklum og vaxandi umsvifum í íslensku efnahagslífi vegna örs vaxtar ferðaþjónustu, stóraukins kaupmáttar heimilanna og vaxandi fjárfestingum. Mat stjórnenda á núverandi aðstæðum í atvinnulífinu eru svipaðar og á árinu 2007 og mat á aðstæðum eftir sex mánuði mun betra en þá. Könnunin er gerð ársfjórðungslega fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands og er framkvæmd hennar í höndum Gallup.

Fram kemur í frétt á vef SA að enn fjölgi fyrirtækjum sem finna fyrir vinnuaflsskorti, en svo háttar til um þriðjung þeirra samanborið við 17 prósent fyrir ári síðan. Búast má við tvö prósent fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum sem svarar til 2.500 starfa. Skortur á starfsfólki og áformuð fjölgun starfsmanna er langmest í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.

Stjórnendur búast við kröftugri aukningu eftirspurnar á innanlandsmarkaði á næstunni og töluverðum hækkunum á verði á vörum og þjónustu fyrirtækjanna sem aðfanga þeirra. Jafnframt virðast þeir bjartsýnir um þróunina á erlendum mörkuðum.

Fjárfestingar aukast mikið milli áranna 2015 og 2016 í öllum atvinnugreinum nema sjávarútvegi, en þó mest í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.

Á næstu tólf mánuðum búast stjórnendur við töluverðum vaxtahækkunum, að verðbólgan verði þrjú prósentog gengi krónunnar haldi áfram að styrkjast.

Aðstæður mjög góðar í atvinnulífinu að mati stjórnenda

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar muninn á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, er nú svipuð og hún var árið 2007 þegar efnahagslífið einkenndist af ofhitnun. Mikill meirihluti stjórnenda, 76 prósent, telur aðstæður í atvinnulífinu góðar, en einungis 3 prósent að þær séu slæmar. Í öllum atvinnugreinum telur meirihluti stjórnenda aðstæður vera góðar.

Almennt talið að aðstæður batni næstu 6 mánuði

Mun fleiri stjórnendur telja að aðstæður í efnahagslífinu verði betri en að þær verði verri eftir sex mánuði. Fjörutíu og fjögur prósent þeirra telja aðstæður verða betri en 9 prósent verri. Stjórnendur í öllum atvinnugreinum eru bjartsýnir á framvinduna en bjartsýnin er langmest í byggingariðnaði og ferðaþjónustu, en minnst er hún í sjávarútvegi. Meiri bjartsýni gætir á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni og meðal fyrirtækja sem einungis starfa á heimamarkaði en útflutningsfyrirtækja.

Mikil fjölgun starfsmanna á næstunni

Rúmlega 30 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. Þrjátíu og átta prósent stjórnenda þeirra sjá fram á fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum, þ.a. 4 prósent mikla fjölgun, 6 prósent sjá fram á fækkun en 56 prósent búast við óbreyttum fjölda. Þegar svör stjórnenda eru vegin með stærð fyrirtækjanna fæst að starfsmönnum  þeirra fjölgi um rúmlega 2 prósent á næstu sex mánuðum. Sé sú niðurstaða færð yfir á almenna vinnumarkaðinn í heild má búast við að störfum þar fjölgi um 2.500 á næstu sex mánuðum. Fjölgun er áformuð í öllum atvinnugreinum, en langmest í flutningum og ferðaþjónustu, þar á eftir í þjónustugreinum og iðnaði, en minnst í verslun og sjávarútvegi.

Búast við heldur meiri hagnaði á þessu ári

Heldur fleiri stjórnendur búast við auknum hagnaði á þessu ári frá fyrra ári en þeir sem búast við minni hagnaði. Tuttugu og átta prósent stjórnenda búast við að hagnaður fyrirtækjanna sem þeir stjórna, sem hlutfall af veltu, aukist milli ára en 23 prósent að hann minnki. Stjórnendur í byggingariðnaði og flutningum og ferðaþjónustu eru bjartsýnastir um hagnað fyrirtækjanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×