Skoðun

Líf og dauði við Aðalstræti

Helgi Þorláksson skrifar
Fógetagarðurinn við Aðalstræti, sem sumir nefna Víkurgarð, er einn fegursti og sögulegasti staður í miðbæ Reykjavíkur, fagur ekki síst fyrir stæðileg tré og sögulegur vegna þess að þarna stóð Víkurkirkja og kirkjugarður og enn sjást ummerki þess. Hinn 9. febrúar sl. mátti lesa í dagblaði að þessi skjólgóði garður yrði brátt „aðalútisvæði“ fyrir 160 herbergja hótel sem rísa skal á Landsímareit. Aðkoma að hótelinu skal vera um Fógetagarðinn. Gestir hótelsins munu draga farangur sinn um garðinn og þar munu fara um aðrir þeir sem eiga erindi inn á hótelið. Þetta mun trufla og takmarka allt annað athafnalíf í garðinum, og sjálfsagt koma í veg fyrir margt, eins og t.d. markað sem hefur verið haldinn þarna á laugardögum á sumrin. Í dagblaðinu fyrrnefnda sagði forsvarsmaður að hótelið myndi „skapa líf“. Ekki í Fógetagarðinum, það mun drepa það sem fyrir er.

Nú þegar er umferð hópferðabíla mikil um Aðalstræti og átök um að komast að til að hleypa út eða inn gestum hótela en þau eru á hverju strái. Keyrir alveg um þverbak þegar hið nýja hótel bætist við og líka fyrirhugað hótel í Herkastalanum. Yfirvöld munu e.t.v. banna umferð hópferðabíla um götuna og ætla gestum lengri og meiri burð farangurs. En það breytir litlu fyrir Fógetagarðinn.

Hvernig dettur forsvarsmönnum borgarinnar í hug að afhenda einkafyrirtæki þennan mikilvæga og sögulega garð, sameign okkar allra, sem „aðalútisvæði“ risahótels? Það er óverjandi.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.