Innlent

Kostnaður við sérkennslu margfaldast

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Spara þarf á leikskólum borgarinnar, fyrst og fremst í sérkennslu og stuðningi.
Spara þarf á leikskólum borgarinnar, fyrst og fremst í sérkennslu og stuðningi. vísir/stefán
Skera á niður áttatíu milljónir til stuðnings og sérkennslu í leikskólum á árinu. Er þetta liður í hagræðingaaðgerðum Reykjavíkurborgar. Leikskólastjórar hafa gagnrýnt niðurskurðinn enda skjóti skökku við að spara í sérkennslu þegar sífellt fleiri börn þurfi aðstoð. Einnig að búið sé að skera niður að beini í leikskólum borgarinnar.

Skúli Helgason.
Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, segir gríðarlegan vöxt útgjalda til sérkennslu eina ástæðu þess að endurskoða þurfi fyrirkomulagið. Frá árinu 2009 hafi kostnaður við sérkennslu aukist um 800 milljónir króna, farið úr 300 milljónum í ellefu hundruð milljónir.

Sparað verður í sérkennslu barna með vægari raskanir, svo sem málþroska- og hegðunarraskanir. Skipulag þjónustunnar breytist og áherslan verður á virka ráðgjöf og handleiðslu sérfræðinga við starfsfólk leikskóla, eins og gert hefur verið með hegðunarráðgjöf.  Skúli tekur börn með erlendan bakgrunn sem dæmi en greiningar á málþroskaröskunum hafa tvöfaldast á síðustu árum. Árið 2012 greindust 124 börn með röskunina en árið 2014 voru þau tvö hundruð.

„Annað hvert barn sem er sent í greiningu vegna málþroskaröskunar er af erlendum uppruna. Við getum minnkað áherslu á greiningar sem eru dýrar og tímafrekar og einbeitt okkur að því að auka málörvun og þjálfun á leikskólanum – án sérstakrar greiningar. Við þurfum ekki flóknar greiningar til þess að vita að barn af erlendum uppruna þurfi stuðning í íslensku.“

Greiningar leikskólabarna hafa almennt aukist mjög og þar af leiðandi sérkennsla og stuðningur á leikskólum. Nær tvöfalt fleiri börn voru með greiningu á leikskólum Reykjavíkur árið 2014 en árið 2009.

„Við viljum skoða þessa aukningu á greiningum. Hvort það séu alltaf eðlilegar ástæður að baki eða hvort þær séu hugsanlega afleiðing af því hvernig kerfið okkar er byggt upp. Því ef barn er komið með greiningu fylgir því fjármagn. Þannig myndast hvati í kerfinu að senda börn í dýrar greiningar. Við viljum draga úr þessari greiningamiðun en tryggja betur að úrræðin séu markviss og skili sér í stöðugum framförum barnanna,“ segir Skúli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×