Þá er í greiningu deildarinnar bent á að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 1,4 prósent á milli mánaða í desember og um 9,4 prósent frá fyrra ári.

Höfuðborgarsvæðið sé hins vegar ekki með sérstöðu þegar kemur að hækkunum, þótt þær hafi verið mismunandi á milli bæja. „Sums staðar var hækkunin meiri eða álíka og á höfuðborgarsvæðinu.“
Reykjavíkurborg hefur greint frá því að á síðasta ári hafi verið gefin út nærri tvöfalt fleiri byggingarleyfi en árin þar á undan. Þá lagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fram á fundi borgarráðs í síðustu viku lista yfir næstu fjölbýlishúsalóðir sem borgin hafi til úthlutunar, en þar eru um 1.200 íbúðir, sem bætast við framkvæmdir á vegum einkaaðila.
Ásgeir Jónsson, dósent við hagfræðideild HÍ og efnahagsráðgjafi Virðingar, segir ýmsa þætti ýta undir hækkandi fasteignaverð. Aukið framboð í borginni hafi lítil áhrif til skemmri tíma vegna þess hve fasteignir séu lengi í byggingu. „Þeir ná ekki að afhenda íbúðir fyrr en á næstu einu til tveimur árum,“ segir hann.

„Þetta er með mestu aukningu kaupmáttar sem við höfum séð í langan tíma,“ segir hann. Horfa þurfi aftur til áranna 1997 og 1998 til að sjá viðlíka aukningu. „Og það hefur náttúrlega áhrif á fasteignamarkaðinn. Að jafnaði hafa Íslendingar eytt um það bil einum fimmta af tekjum sínum í húsnæði.“
Að auki hafi áhrif að núna séu stórir árgangar að detta inn á þrítugsaldurinn, sem hafi áhrif á eftirspurnina. „Þessir tveir þættir, hækkun launa og aukin eftirspurn, setja töluverðan þrýsting á fasteignamarkaðinn.“
Við bætist svo að töluverðum fjölda íbúða hafi verið kippt út af fasteigna- og leigumarkaði vegna Airbnb og svo hafi byggingariðnaður verið mun seinni í gang en búist hafi verið við.
„Hann datt alveg niður og við misstum allt of mikið af fólki og tækjum úr landi á sínum tíma. Það vantar bara verktakafyrirtæki.“ Þá bætist aukinn launakostnaður líka við hækkandi byggingarkostnað, sem einnig setji þrýsting á verð.