Skoðun

Íslensk þjóðmenning í hávegum höfð

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifar
Í dag fögnum við merkum áfanga sem markar þáttaskil í þjóðminjavörslu á Íslandi. Í Þjóðminjasafninu er varðveitt stórt safn minja um meira en þúsund ára sögu íslensku þjóðarinnar. Í samræmi við áherslur stjórnvalda á málaflokkinn hefur verið tekin ákvörðun um að tryggja bestu aðstæður fyrir þessa grunnstarfsemi þjóðminjavörslunnar. Undirritaður verður samningur um nýtt og vel búið fjögur þúsund fermetra Varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands sem ætlað er að mæta kröfum samtímans um örugga vörslu menningarminja. Í húsinu verða öryggisgeymslur fyrir stóran hluta safnkosts Þjóðminjasafns auk starfsaðstöðu fyrir sérfræðinga, fræðimenn og nemendur. Öflug öryggisvarsla, hita- og rakastýring verður í húsnæðinu svo tryggja megi varðveislu fjölbreytts og viðkvæms safnkosts muna og jarðfundinna gripa. Í húsnæðinu verða einnig rannsóknarstofur, forvörsluverkstæði, aðstaða til sérhæfðrar umsýslu forngripa og aðstaða til undirbúnings sýninga. Einnig verður í húsnæðinu aðstaða til kennslu en Þjóðminjasafn Íslands er háskólastofnun með mikilvægt hlutverk fyrir námsmenn og rannsóknarstörf.

Grundvallarbreytingar voru gerðar á málefnum menningararfs með núverandi ríkisstjórn árið 2013 þegar forræði málaflokksins var flutt í forsætisráðuneytið samkvæmt forsetaúrskurði. Frá þeim tíma hefur markvisst verið unnið að því að efla stofnanir og starfsemi á málefnasviðinu. Samþykkt hafa verið lög um verndarsvæði í byggð sem stuðla að verndun byggðamynsturs í þéttbýli og er nú unnið að endurskoðun laga sem varða málaflokkinn. Sjónum hefur ekki hvað síst verið beint að sögulegum húsum í vörslu Þjóðminjasafns Íslands, en þar eru varðveitt torfhús sem eru á yfirlitsskrá heimsminjaskrár UNESCO. Gert hefur verið víðtækt átak á sviði minjaverndar, sem meðal annars felur í sér bætt aðgengi ferðamanna að minjastöðum þjóðarinnar. Með Varðveislu- og rannsóknasetri Þjóðminjasafns Íslands verður stuðlað að vandaðri vörslu menningarminja og auknum skilningi á menningararfi Íslands. Í því felast tækifæri til menntunar, atvinnusköpunar og aukinnar hagsældar í landinu. Það er því mikið fagnaðarefni að þessum áfanga sé náð.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×