Körfubolti

Helena með þrennu að meðaltali á móti Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir í leik á móti Keflavík í vetur.
Helena Sverrisdóttir í leik á móti Keflavík í vetur. Vísir/Stefán
Haukar og Keflavík mætast í kvöld í Domino´s deild kvenna í körfubolta og verður leikur liðanna í beinni á Stöð 2 Sport 3.

Bæði lið hafa gengið í gegnum breytingar í fyrsta mánuði ársins en Haukar tóku inn bandarískan leikmann en Keflavík skipti um þjálfara.

Þetta verður fyrsti leikur liðanna eftir þessar róttæku breytingar en Sverrir Þór Sverrisson tók við liði Keflavíkur af Margréti Sturlaugsdóttur og hin bandaríska Chelsie Alexa Schweers samdi við Haukaliðið.

Helena Sverrisdóttir, spilandi þjálfari Haukaliðsins, hefur verið Keflvíkingum erfið það sem af er tímabilinu.

Haukar hafa unnið báða leikina og Helena er með þrennu að meðaltali eða 20,0 stig, 16,5 fráköst og 11,0 stoðsendingar að meðaltali. Þetta er eina liðið í deildinni sem Helena hefur náð að vera með þrennu að meðaltali á móti.

Helena var með þrennu í fyrri leiknum sem Haukar unnu 88-74 í Keflavík (17 stig, 17 fráköst, 13 stoðsendingar) en vantaði aðeins eina stoðsendingu í þrennuna í seinni leiknum á Ásvöllum sem Haukaliðið vann 69-61 (23 stig, 16 fráköst, 9 stoðsendingar). Hún náði 40 í framlag í báðum leikjum.

Síðast þegar Sverrir Þór Sverrisson stýrði Keflavíkurliði á móti Helenu Sverrisdóttur þá tryggðu Haukakonur sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil en það var 7. apríl 2006. Helena var þá einnig með þrennu , skoraði 13 stig, tók 16 fráköst og gaf 11 stoðsendingar.  

Pálína Gunnlaugsdóttir er eini annar leikmaður Hauka sem tók þátt í þessum leik fyrir tæpu tíu árum og engin leikmaður Keflavíkurliðsins þá er enn að spila með liðinu.

Leikur Hauka og Keflavíkur hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×