Handbolti

Aron: Verðum að setja markið hátt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
„Við erum flestir í mjög góðu formi og þessi síðasta æfing fyrir leik var mjög góð. Við erum klárir í þennan leik,“ segir Aron Pálmarsson en Ísland var þá nýbúið með 90 mínútna æfingu í Spodek-höllinni í Katowice.

„Þessi Noregs-leikur leggst vel í mig. Þeir spila hraðan bolta. Þetta er ferskt lið og fínt að fá þannig lið í byrjun. Það var norskur blaðamaður að segja mér að þeir hefðu ekki unnið okkur í níu leikjum í röð. Við ætlum ekkert að klúðra þeim árangri í þessum leik,“ sagði Aron ákveðinn.

Sjá einnig: Með stjörnur í augunum er hann borðaði með Balic

Fyrsti leikur í mótum er alltaf mjög mikilvægur. Það vilja öll lið fá vind í seglin strax í upphafi. Hvað varðar þennan leik er þetta líklega leikur upp á tvö stig til að taka með í milliriðilinn.

„Að sjálfsögðu skiptir máli að byrja mótið vel. Við erum í hörkuriðli og getum alveg gengið út frá því að Noregur fari með okkur í milliriðil. Þá er gott að eiga stigin á þá.“

Sjá einnig: Ísland er sigurstranglegra

Aron segir að fyrsta markmið liðsins sé að komast í forkeppni Ólympíuleikana en hann horfir líka lengra en það.

„Ólympíuleikarnir eru gulrótin sem við erum að elta. Það má samt ekki gleyma því að við erum á EM og þar vill maður ná árangri. Við viljum komast í milliriðil með sem flest stig. Þar förum við ekkert til þess að tapa. Við verðum ekkert saddir þar. Við viljum koma okkur þaðan í undanúrslitin. Maður verður að setja markið hátt,“ segir Aron réttilega enda er Ísland með öflugt og reynt lið.

„Við höfum oft verið þekktir fyrir að geta unnið alla og tapað fyrir öllum. Við erum með reynt lið og eigum að þekkja þessa stöðu.“

Viðtalið við Aron má sjá í heild sinni hér að ofan.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn: sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×