„Þetta er að mörgu leyti jafn riðill en ég vil vera jákvæður og meta möguleika okkar góða,“ segir Geir Sveinsson landsliðsþjálfari en Ísland hefur leik í undankeppni EM í kvöld er Tékkar mæta í Höllina.
„Við þurfum að hafa virkilega fyrir því að komast áfram og það er ekkert sjálfgefið að það gerist. Það er því verkefni fram undan.“
Tékkar fóru illa með Ísland á HM í Katar árið 2015 er þeir völtuðu yfir okkar menn með ellefu marka mun, 36-25.
„Þetta er mjög öflugt lið. Fljótt á litið sýnist mér 10-11 menn úr liðinu frá því í Katar vera að koma hingað. Við eigum einfaldlega harma að hefna og með góðum stuðningi frá fullri höll er ég sannfærður um að okkur takist að hefna,“ segir Geir en í kjölfarið fer liðið í langt ferðalag til Úkraínu.
„Úkraína er óskrifað blað og langt ferðalag. Það verður klárlega mjög erfið viðureign.“
Sjá má viðtalið við Geir í heild sinni hér að ofan.

